Friday, August 15, 2008

hæhæ allir!

Biðst afsökunar á langri pásu, en eins og er erum við bara með eina fartölvu sem þýðir það að ég er með aðgang þegar honum Daða þóknast að leggja frá sér tölvuna. Ég sá að fullt af fólki hafði skrifað við síðasta póst, það er alltaf gaman að sjá að einhverjir eru að skoða bullið í mér- endilega haldið áfram að kommenta ;) Og það sem er helst í fréttum...
Júb, það svo virðist sem hann Daði sé kominn með vinnu (7,9,13...). Þetta er ekki vinnan í Rotterdam heldur mun nær (sem betur fer). Þetta er sem sagt alþjóðlegt fyrirtæki með útibú rétt fyrir utan Amsterdam og þeim vantar tölvugaur þessa dagana. Vinnan virðist mjög svipuð þeirri sem Daði hafði heima á safninu, og honum leist bara vel á tölvunördana sem tóku viðtalið við hann (hann gat meira að segja botnað Star- trek tilvitnunina þeirra). Fyrst átti að boða hann í annað viðtal, en svo leist fólkinu víst svo vel á hann að þau vildu bara fá hann sem fyrst. Ég er viss um að glænýju jakkafötin sem við keyptum handa honum helgina áður (á útsölu sko) höfðu jákvæð áhrif, þarf að sýna ykkur mynd af kappanum í fullum stríðsbúning. Hann er ekki búinn að skrifa undir enn, en það er víst allt í burðarliðnum. Við krossum bara putta og vonum að ekkert komi upp á...
Við ákváðum svo að halda upp á þessar gleðifréttir með því að leigja okkur bíl á fimmtudagsmorguninn og keyra í skyndiheimsókn til Svönsu og Halla í Odense (ég var einmitt að hugsa til þín Gunnhildur, heima á Íslandi núna loksins þegar ég drífi mig;). Ferðin tók ekki nema ca 8 tíma og við vorum komin þangað rétt upp úr fimm. Þau eru sem sagt ný flutt í nýbyggt krúttlegt hverfi í Fraude og eru mjög lukkuleg þar ásamt helmingnum af Íslendingunum í odense (=litla Reykjavík). Hún Rakel litla þekkti mig strax og kom hlaupandi á móti mér, en Ísabella tók aðeins lengri tíma til að taka mig í sátt. Við eyddum svo helginni í miklum lystisemdum og afslöppun og Halli kokkaði ofan í okkur gourmet mat og svo var hlaðborð á hverjum morgni. Við kíktum í miðbæ Odense á laugardagsmorguninn og töltum þar um, alveg gullfallegur lítill bær og ég gæti sko alveg ímyndað mér að búa þarna. Um kvöldið var brjálað íslendinga-grill í götunni þeirra, og allir átu grillmat, skáluðu í víni og tópas, og að lokum voru dregnir fram gítararnir og sungið langt fram á nótt. Þarna voru víst nokkrir Danir líka að væflast eitthvað, með litlu kolagrillin sín og hræðslublik í augunum en urðu svo jafn glaðir og hinir þegar á leið kvöldið. Við bættum það sem sagt upp að hafa misst af verslunarmannahelginni þetta árið ;) Á sunnudaginn (þegar fólk var komið í gang) kíktum við svo á Egeskov sem er voða flott slott með páfuglum, leikvöllum, bíla og mótorhjólasafni (gaman fyrir daða), veitingastað og svo uppáhaldið mitt- garður með hengirúmum til afslöppunar. Á mánudagsmorguninn ákváðum við að dúlla okkur aðeins, fyrst stelpurnar voru í leikskólanum, og kíkja saman fullorðna fólkið í brunch í odense- hráskinka, rúgbrauð, djúsí jógúrt með berjum og múslí, pönnukökur, egg og beikon... Namm!! Vantaði bara freyðivínið (eða almennilegt kaffi...). Okkur fannst allt of snemma að fara af stað á um hádegi á mánudeginum en þetta var alveg rosalega gaman, og ekkert allt of dýrt að leigja bíl í fjóra daga (mun ódýrara en að fljúga). Ekki sakaði það að bíllinn eyddi eins og meðalstór kveikjari á hraðbrautinni.
Á miðvikudagskvöldið héldum við fyrsta opinbera matarboðið heima hjá okkur, buðum fjórum en áttum bara fjóra stóla svo að garðstólarnir okkar komu að góðum notum. Ég bauð sem sagt vinkonum mínum Anisku og Lussy af skrifstofunni, Xiwen fyrrverandi sambýlingi og mark kærasta Anisku. Við drógum fram svefnsófann og sjónvarpið okkar inn í stofu og settum þvottagrindina inn í svefnherbergið, kveiktum á kerti og settum smá tónlist á tölvuna, og þetta leit bara næstum því út eins og alvöru heimili. Hún Xiwen mætti meira að segja með deig og kjötfyllingu og framleiddi stóran skammt af kínverskum dumplings með matnum. Þetta var bara mjög vel heppnað, við kláruðum amk þrjár vínflöskur og nokkur staup af Tópas (fór misvel ofan í fólk get ég sagt ykkur) og svo var fimmtudagurinnmorguinn í vinnunni sérstaklega erfiður.....
Veðrið hérna hefur skánað alveg rosalega mikið, sem betur fer var rakinn bara í nokkra daga og síðan þá hefur veðráttan bara verið svipuð íslenskri sumarveðráttu. Moskítóflugurnar hafa hægt aðeins á ásókninni og við erum meira að segja búin að fjárfesta í rafmagnsflugnaspaða ef þær skyldu snúa aftur.
Svo bið ég bara svaka vel að heilsa, söknum ykkar allra voða mikið!!
(p.s. lofa að setja inn myndir bráðlega).
Kv Helga