Monday, July 28, 2008

Jungle boogie

úff, hvað það er viðbjóðslega, hrikalega, ógéðslega rakt hérna! Örugglega 70 % raki, maður verður blautur af því bara að labba um án þess að svitna. Ég byrja alltaf hjólaferðarnar á morgnana í jakka (ef það skyldi rigna) og léttri peysu (því það er svo mikil loftræsting í vinnunni) en enda alltaf hálfnakin þegar áfangastað er náð. Rúmið er rakt á kvöldin þegar við leggjumst í það og andlitið á manni alltaf einhvern vegin feitt vegna rakans (þess vegna er ég eins og 15 ára unglingur þessa dagana). Svo ekki sé minnst á moskítuflugurnar sem gæða sér á manni á næturna, en ég er komin með amk. 7 bit sem ég man eftir, og svo heldur kláðinn fyrir manni vöku nótt eftir nótt. Við horfðum á survival-þátt um daginn (þar sem brjálaður breti lætur kasta sér út í fjandsamlegustu umhverfi jarðarinnar og reynir að lifa þar af með ekkert nema vasaklút og bréfaklemmu) og gaurinn var að flækjast um regnskóga indónesíu og ég held bara að við daði höfum fundið fyrir mikilli samkennd með honum. Þegar hann sýndi áhorfendum skordýrabitin sín, rennblaut fötin og mauksoðnar tærnar eftir daginn kinkuðum við bæði kolli og hugsuðum með okkur "oooh, hvað ég skil þig vel, við erum sko á sömu blaðsíðu".
Jamm, útlandsdraumurinn er ekki jafn sætur og hann var heima á fróninu, mig langar í ferska íslenska loftið og góða veðrið sem ég les um í fréttablaðinu! Ég hefði reyndar líka gert mér grein fyrir blíðviðrinu þó ég hefði ekki aðgang að blaðinu, þar sem það hefur ekki sála verið á netinu síðan löngu fyrir helgi (og ekki heldur tölvunördarnir sem daði þekkir). Bara eins og ísland eins og það leggur sig sé orðið sambandslaust, en öllum er sama þar sem þeir liggja allir á bakkanum í Laugardagslaug eða úti í garði og drekka bjór og borða ís. Hvers á ég að gjalda!! Þetta er allt saman farið að leiða af sér vísir af heimþrá, ég er farin að hugsa óvenjulega mikið um familíuna heima, vini mína þar, og svo nottlega stóru systir í danmörku (sem virðist nær og nær á kortinu í hvert skipti sem ég lít á það). En þar sem Daði er enn í atvinnuleit, og flugmiðar í sögulegu hámarki ætlum við að halda í okkur fyrst um sinn. Líklegra að maður splæsi í bílaleigubíl og bara keyri þetta, þar sem flugmiðar fram og til baka eru ca 40-60 þús kall á haus á meðan bíl+bensín bara getur ekki verið svona dýrt. Ég kann ekki einu sinni að leita að lestarferð þarna á milli þar sem þetta er á milli landa og ekki eru til neinar beinar ferðir á milli odense og amsterdam. Ég held að heimþráin myndi líka dofna ef við hefðum það huggulegra heima við, en enn eigum við engan sófa eða samstæðu undir sjónvarpið í stofu+ allt dótið okkar er enn í flutningi með samskip. Ég er viss um að allir sem þetta lesa eru að njóta sumarsins meira en við....

Friday, July 25, 2008

Víhí- loks búin að fatta hvernig maður setur inn íslenska bókstafi í vinnutölvunni! Ég sit hér og læt mér leiðast, er að bíða eftir sendingu og get ekkert gert fyrr en ákveðin vara kemur. Tók mér frí í gær þegar það lá ljóst fyrir að hún myndi ekki koma þann daginn. Það var reyndar mikil lukka, enda reyndist þetta vera fallegasti dagur sumarsins hingað til, og ég naut hans til fullnustu. Ég byrjaði á því að skokka í stóra garðinum sem er rétt hjá okkur. Þar var mikið af fólki að skokka, sóla sig við vatnið, vaða, leika sér með börnunum sínum, í lautarferðum og ég veit ekki hvað. Eftir á dró ég Daða aftur út í garðinn, en þar er gömul verksmiðja sem breytt hefur verið í kaffhús, bari og gallerí af ýmsum stærðum og gerðum. Þar splæsti ég á hann morgunmat og kaffi, og svo dúlluðum við okkur í bænum og sleiktum sólina. Hollendingar kunna sko að njóta þess þegar sólin skín- allir garðar pakkaðir og meðfram öllum síkjum lágu allir í sólbaði með vínflöskur. Sumir tylltu sér á litla fljótandi pramma meðfram síkjunum, þar sem bátar geta lagt að, og allir bátaeigendur notuðu tækifærið til að sýna sig og sjá aðra. Og þeir sem voru svo heppnir að búa við síkin sjálf, drógu bara matarborðið út á tröppurnar sínar, eða settust í stóla við innganginn, og voru jafnvel með kertaljós og þriggja rétta máltíð um sjöleitið, mjög spes stemming að labba þar um þar sem maður fékk það á tilfinninguna að maður væri að vaða inn í borðstofuna hjá fólki á skítugum skónum. Ég notaði auðvitað tækifærið og skellti mér í búðir á meðan Daði lék sér í tölvunni á næsta bar, keypti mér pils í mangó á útsölu og sjal og svona smotterí. Auðvitað hafði tilgangurinn verið að kaupa sér almennilegar buxur (enda tók ég bara einar með mér út) en pils virkar alveg jafn vel og er miklu þægilegra þegar veðrið er svona fallegt. Veðrið er líka fallegt í dag, kannski ekki alveg jafn gott, og um helgina á það að vera lala. Planið var um helgina að kíkja í flotta líkamsræktarstöð sem er stutt frá mér, þau eru með frían dagpassa fyrir nýja kúnna og mig langar að prufa að mæta (er orðin soldið þreytt á að skokka bara). Svo er spurning hvort maður skelli sér ekki á einhvern útimarkað um helgina, ef þannig viðrar og ekkert annað kemur upp. Svo er ég búin að kaupa múffu-form í Ikea, þannig að það er aldrei að vita nema maður baki eins og eina uppskrift af múffum um helgina og vígi þannig ofninn góða. Reyndar gekk ég í gegnum eld og brennistein til þess að finna heilhveiti hérna, en það var ekki til í helstu matvöruverslunum og þurfti ég að fara í fína lífræna sérverslun til að finna það. Hollendingar virðast helst vilja kaupa kökur og brauð, og í besta falli baka upp úr tilbúnu mixi (voru til svona 20 mismunandi brauð- og köku mix í pakka í bökunarhillunum en bara ein gerð af hveiti)- það virðist enginn reikna með því að maður geri þetta bara sjálfur frá A til Ö. Afskaplega er maður eitthvað myndarlegur...
Daði var að heyra frá Samskip, reyndar bara að þeir séu að bíða eftir því að einhver gaur komi til baka frá Íslandi áður en þeir taka ákvörðun, en maðurinn sagði reyndar í brefinu að bæði CV-ið og viðtalið hefðu verið mjög "impressive", þannig að þetta lítur alla veganna vel út. Við ætlum því að hinkra aðeins með net-tengingu heima, amk þar til við vitum hvað við borgum mikið mánaðarlega fyrir gas, rafmagn og sjónvarp og svoleiðis. Um leið og ég fæ tengingu lofa ég að fara að hringja aftur í fólk í gegnum tölvuna, en ég má náttúrulega ekki gera það í gegnum vinnutölvuna.
Ég set inn myndir í náinni framtíð, þangað til verið bara dugleg að skrifa í gestabókina þannig að ég sjái hvort einhver sé nú að lesa þetta (er búin að leyfa komment frá öllum núna).
Kærar kveðjur fra Hollandi,
Helga (og Daði)

Sunday, July 20, 2008

Ikea rúlar

Mmm, sit á kaffihúsi í göngufjarlægð frá íbúðinni minni sem heitir Beyglur og Baunir og serverar girnilegar beyglur og múffur og skítsæmilegt kaffi. Mikið er gaman að búa í svona skemmtilegu hverfi þar sem er mannlíf og kaffihús, í stað þess að búa á enda veraldar eins og hingað til. Við fórum í pílagrímsferð til Ikea á föstudaginn, ásamt Anesku sem var svo indæl að bjóða fram bílinn sinn til húsgagnaflutninga. Við keyptum alls kyns dót og drasl, en það mikilvægasta var nottlega matarborðið okkar! Mikið er gaman að þurfa ekki að borða morgunmatinn sinn á þess að sitja við borð, matur bara bragðast ekki eins nema maður geti slappað af og lesið blaðið í rólegheitum. En auðvitað passaði borðið ekki í skottið, munaði ca hálfum sentimeter á því og olli það okkur mikilli gremju og óhamingju eftir langan eftirmiðdag í Svíaveldi. En sem betur fer er ekki svo dýrt að láta senda mublur, um 29 evrur fyrir borðið okkar- eini gallinn var að við h öfðum lofað okkur í mat hjá Gesti (leiðbeinanda mínum) og þurftum að taka lest um þrjúleitið daginn eftir, og þó að Ikea gaurinn lofaði því upp á trú og æru að borðið yrði komið fyrir 1 þá trúðum við því svona mátulega. Enda stóð það heima að ekkert bólaði á borðinu kl 2, og eftir erfitt símtal á hollensku (það tala sem sagt ekki allir ensku hérna) komumst við að því að bíllinn hefði lent í óhappi og væri bara rétt ókominn. Við vorum hér um bil á leiðinni út um dyrnar kl 3, ósátt mjög, þegar þeir komu loks, svo að allt fór vel á endanum og við gátum notið matarins hjá Gesti og Michelle, og börnunum hans þremur. Hann keyrði okkur fyrst um héraðið sitt, sem er mjög fallegt og með fullt af eldgömlum húsum og köstulum og eiginlega bara eins og úr ævintýri. Við borðuðum allt of mikinn góðan mat, drukkum allt of mikið vín og bjór og fórum allt of seint heim= mjög skemmtilegt kvöld fyrir okkur bæði. Gestur og Daði eru báðir forfallnir tölvu-og tækjanördar af hæstu gráðu og gátu því talað mikið um Atari leikjatölvur og nýjustu farsímana og ég veit ekki hvað.
Annars erum við bara mjög ánægð í nýju íbúðinni okkar þessa dagana, vantar helst bara sófa og sjónvarpsskenk, og einhverjar hillur til að troða draslinu okkar í. Við ætlum samt að bíða með stærstu fjárfestingarnar þangað til að Daði fer að fá einhverjar tekjur, við getum alveg lifað af í útlegustemmingunni þangað til.
Hún amma átti níræðisafmæli í fyrradag, og var úti að borða með familíunni þegar ég hringdi í hana til að óska henni til hamingju. Skemmtileg tilviljun að annað merkismenni, hann Nelson Mandela, átti níræðisafmæli á sama degi, og ekki er þar leiðum að líkjast. Ég vona bara að allir hafi skemmt sér vel og óska þess að ég hefði getað verið þarna L

Ég skal setja inn nýjar myndir af íbúðinni þegar hún er orðin soldið flottari!

Sunday, July 13, 2008

Síkjakafarinn

Hæhæ aftur. Jæja, hvað er helst í fréttum? Jú, maður er ekki lengur einhleypingur þar sem hann Daði er mættur á svæðið! Jei ;) Auðvitað gekk þetta ekki snuðrulaust fyrir sig, auminginn lenti í því að þegar hann var kominn til Eindhoven uppgötvaði hann að síminn hans virkaði ekki í útlöndum. Til að toppa allt saman, þá virkaði hvorugt kortið hans í miðasjálfsölunum, en hann þurfti að kaupa lestarmiða til Amsterdam þar sem ég ætlaði að taka á móti honum. Hvorki símasjálfsalarnir né miðasjálfsalarnir vildu kannast við evrurnar hans, og þar sem þetta var að kvöldi til, var enginn við til að selja honum miða á annan máta... Nú voru góð ráð dýr! En sem betur fer gat hann reitt sig á góðvild ókunnugra, þar sem hann rakst á indælt hollenskt par á flugvellinum sem gat keypt fyrir hann lestarmiða og svo leyfði leigubílastjórinn honum að nota símann sinn til að hringja í mig. Ég var farin að undrast um kauða, enda gat ég ekkert hringt í hann og ég vissi að hann hafði ekki leiðbeiningar til að komast til mín (enda hafði ég ætlað að sækja hann á lestarstöðina). En allt er gott sem endar vel, og hann skilað sér á endanum í hendur viðtakanda. Við eyddum svo helginni bara í afslöppun og stúss, fengum okkur gott að borða og svona og nutum blíðviðrisins sem hann flutti með sér frá Íslandi. Í dag fórum við ásamt xiwen svo í pílagrímsferð til Mediamark, sem er risastór raftækjaverslun, og fjárfestum í netmyndavél. Ef ónefndir fjölskyldumeðlimir gætu bara drifið sig í að vera nettengdir af og til (á sunnudögum til dæmis) þá er hægt að tala við okkur og sjá okkur í leiðinini (bara til öryggis, ef við skyldum breytast mikið í útlöndum). Eftir á fórum við í mekka húsmæðra- og feðra, Ikea!! Þar gæddum við okkur á laxi og kjötbollum og létum okkur dreyma um hvað við ætlum að búa flott og smekklega þegar við komumst úr kvennafangelsinu hérna á Louweshoek. Annars er það helst í fréttum að á morgun eigum við að skrifa undir samning við íbúðareigandann og þá er ekkert því til fyrirstöðu að við getum flutt inn í fyrirheitna framtíðarheimilið. Spurning hvernig þetta fer, enda höfðum við nokkrar spurningar um samninginn og sú sem hefur séð um þetta fyrir okkur virðist hálfgerð loftbóla, en við vonum bara hið besta. Ég er amk. mjööög tilbúin til að fá mína eigin íbúð, með alvöru ofni og sturtu sem flæðir ekki upp úr. Hmmm, hvað annað... Jú, smá ævintýri gerðist í síðustu viku þegar ég fór út að borða með stelpunum úr vinnunni. Við fórum á ítalskan veitingastað hérna skammt frá (Perla di Roma), sem hún Lussi var búin að mæla með, en hún er Rómarbúi í húð og hár og ætti að vita svona hluti betur en aðrir. Við pöntuðum líter af húsvíninu og deildum því fjórar (mig grunar samt að ég hafi fengið góðan bróðurpart af flöskunni) og skemmtum okkur vel fram eftir kvöldi. Þegar við ætluðum loksins heim lenti ég í þeirri ólukku að missa lyklana mína í síkið við hliðina, en ég hafði læst hjólinu mínu við grindverkið á brúnni. Þetta var sem betur fer grunnt síki, og þar sem við sáum í lyklana ákváðum við (í kæruleysi augnabliksins) að ég myndi bara hoppa úr buxunum út við vegg, klæða mig í pollabuxurnar hennar Anisku og klifra niður í síkið til að ná í lyklana. Annan eins viðbjóð hef ég aldrei stigið í, vil ekki einu sinni hugsa um hvað var þarna niðri... En ég náði lyklunum upp úr jökkinu og hún lussy sýndi dulda krafta þegar hún hosaði mig aftur upp á brúnna. Eftir á að hyggja var þetta kannski ekki ábyrgðarfyllsta lausnin, en það fór allt vel (sem betur fer) og eftir góða sturtu var ég eins og ný. Héðan í frá verð ég ekki með alla lyklana mína á sömu lyklakippu og hjólalykillinn.....
Eins og þið ættuð að muna, þá hitti ég kunningjakonu Iðunnar svilkonu á íslendingahátíð í Rotterdam fyrir nokkru. Hún lét mig vita af því um daginn að Samskip væri að leita að tölvufólki og hvort að Daði hefði nokkuð áhuga. Hann sendi á þá CV og fékk svo viðtal á Íslandi, sama dag og hann flaug út. Þeim leist bara vel á hann og hann á að hafa samband ið skrifstofuna í Rotterdam eftir helgi. Vinnan er víst fín og ágætlega borguð (betur en mín amk.), en sá er galli á gjöf Njarðar að hún er í Rotterdam- 1-2 klst með lest hvora leið takk fyrir! Við vitum að fólk gerir þetta, og stundum kemur vinnan til móts við mann á ýmsa vegu, en samt, 2-4 klst á dag með lest er afskaplega mikið... Maður vegur þetta bara og metur, sakar ekki að líta á þetta. Jamm, nú er ég sybbin og ætla að fara að sofa- var voða dugleg að skokka með Xiwen í morgun eftir kröftugan El Salvador kaffibolla ala Kaffitár. Ég set inn myndir við tækifæri af uppáhalds Víkingnum mínum og ævintýrum hans í landi syndarinnar. Þangaði til bið ég bara vel að heilsa og mun hugsa fallega til allra heima- vonandi fáið þið betra veður en við þessa dagana ;)

Sunday, July 6, 2008

Hollendingurinn hjólandi

Búin að kaupa mér hjól!! Loksins er maður orðinn alvöru Hollendingur, en ekki bara heimskur túristi á tveimur jafnfljótum. Í gær fór ég í heimsókn til Anisku, en hún bauð okkur í ekta hollenskar pönnukökur heima hjá sér. Rétt hjá henni er þessi flotta hjólabúð sem selur notuð og ný hjól, og það tók mig bara kortér að finna tiltölulega velmeðfarið hjól á 150 evrur (maður á ekki að kaupa of flott hjól, því þá er þeim bara stolið). Auðvitað þurfti maður að splæsa formúu í lás, en lásarnir hér eru engin smá smíði- þykkar akkeriskeðjur og helst tveir lásar per hjól. Ágætis regla er að lásinn kosti tæplega þriðjung af verði hjólsins, og ég er að tefla á tæpasta vað með því að vera bara með einn lás á mínu hjóli (ég kaupi annan þegar ég fæ útborgað). Hingað til hafði ég bara fengið hjólið hennar Xiwen lánað, en það er pínulítið og ekki beint traustvekjandi þar sem það er svona sambrjótanlegt (?) og maður hefur það á tilfinningunni að að að gæti dottið í sundur á hverju augnabliki. En ég mætti sem sagt í pönnukökupartíið hennar Anisku á "glænýju" hjóli og gæddi mér á ljúffengum pönnukökum með beikoni, geitaosti og hunangi- mjög spes en mjög gott líka ;) Planið var að allir myndu svo spila blak í Westerpark á eftir (verður hverfisgarðurinn minn þegar ég flyt) en því var frestað vegna veðurs svo við fengum okkur bara kaffi í Bakkerswinkel í staðin, sem er gömul krúttlega verksmiðja í westerpark. Þetta eru voða krúttlegar byggingar, úr rauðum múrstein og alls kyns flúri, og nú eru þarna barir, gallerí og kaffihús. Eg hef lengi verið að leita að þægilegu kaffihúsi til að lesa greinar og svoleiðis, en þessir fáu staðir sem ég hef fundið loka alltaf kl 6 á daginn og ég er að vinna til kl 5. En svo virðist sem leit minni sé lokið: í dag fór ég ásamt Xiwen og kínverskum vini hennar í borgarbókasafn Amsterdam, en það er risastórt og nútímalegt bókasafn á sjö hæðum með við höfnina, við hliðina á aðallestarstöðinni. Á efstu hæðinni er rosalega flott matstofa þar sem hægt er að fá ýmis konar girnilegan mat og sætindi, og meira að segja hægt að sitja úti og horfa yfir höfnina. Við erum búnar að ákveða að gera þetta vikulega, að kíkja á bókasafnið til þess að lesa greinar og chilla, en eins og allir sem eru í doktorsnámi vita verður maður að lesa mikið af greinum til þess að vera með á takteinunum. Heima hjá mér nenni ég næstum því aldrei að lesa, enda alltaf sofandi uppi í rúmi með grein á maganum eða andlega sofandi fyrir framan sjónvarpið með grein á maganum. En þetta stendur allt til bóta...