Sunday, September 28, 2008

Nýjustu tíðindi frá Amsterdam

Mikið er nú langt síðan maður hefur bloggað. Það hefur nú ýmislegt smálegt skeð síðan síðast- kannski ber hæst í fréttum að við erum loks búin að fjárfesta í miðum heim til Íslands um jólin. Við fljúgum heim 20. desember, og förum heim föstudaginn 4. des. Þessi miðar voru sko ekki ókeypis, ca 70 þús kall á mann takk fyrir. Reyndar er þetta beint flug, og svo verður að taka með í reikninginn að krónan er nottlega í klósettinu núna, en þrátt fyrir það eru 1000 evrur ekkert að grínast með. Greinilega dýrt að vera Íslendingur í útlöndum! Við huggum okkur við það að núna fáum við borgað í evrum, þannig að við ættum að geta lifað eins og kóngar á Íslandi yfir jólin. Við tókum okkur einnig til og fjárfestum í löglegu neti, sem er sko tíu sinnum hraðara en netið sem við stálum af óþekktum nágranna. Í kaupunum fylgdi með stafrænt sjónvarp með fullt af extra stöðvum eins og Discovery science, travel and lifestyle, E-Tv, Sci-fi channel, Fashion -TV og annað skemmtilegt handa mér og svo einhverjar leiðinlegar strákastöðvar handa Daða eins og Motor world. Nú verðum við að passa okkur að festast ekki í einhverju sjónvarpsglápi allan daginn, maður er bara ekki vanur svona miklu úrvali. Hmm, hvað annað skemmtilegt er búin að gerast.... Jú, það var labuitje (lesist óvissuferð á labbinu mínu), og hver haldið þið að hafið skipulagt það annar en hún litla ég! Það er víst hefð fyrir því að nýja fólkið taki þátt í þessu á hverju ári og við stóðum okkur bara með prýði. Ég sá aðallega um að redda framlögum og gjöfum frá ýmsum fyrirtækum og fékk svo mikið að við eigum nóg í afgang til að borga fyrir jólagleði í desember. Dagurinn fór sem sagt þannig fram að við fengum köku (vel merkt Invitrogen) í morgunmat og fórum svo í næsta bæ þar sem við kíktum á stórt fjölmiðlasafn þar sem hægt var að skoða alls kyns skemmtileg brot úr hollensku sjónvarpi og prufa að vera þulur í fréttatíma eða kynnir í skemmtiþætti o.s.frv. Eftir hádegi spiluðum við strandar-blak, og ég var alveg jafn léleg og mig minnti (og er sko með marblettina til að sanna það). Því næst var haldið heim til eins okkar sem býr í þessum bæ og grillað, trallað, og djammað fram eftir. Þetta var sem sagt allt voða gaman, þó að mér hafi fundist safnið kannski síst af öllu þar sem nær allt efnið var hollenskt, en samstarfsólki mínu fannst þetta voðalega spennandi. Ég las fréttirnar á hollensku og svo voru brotin víst spiluð á skjám allan daginn, svo fólk kom upp að mér og hrósaði "fréttaflutningi" mínu, og það var víst alveg hægt að skilja upplesturinn minn.
Síðustu helgi tókum við Daði okkur til að rúntuðum um norður-Amsterdam, en maður verður að hjóla á ferju-stoppistöðina og sigla svo yfir sundið sem aðskilur norður og suður amsterdam. Skrýtið hvað borgin er allt öðruvísi þar, og gaman að skoða allt bryggjuhverfið þarna. Við fundum meira að segja hverfi byggt við höfnina sem var eingöngu fyrir nemendur (svona risastórir stúdentagarðar). Þetta var voða bóhem allt saman, svona gáma-íbúða stiíll, og svo var meira að segja gamalt skemmtiferðaskip þarna við bryggju sem var búið a breyta í húsnæði fyrir stúdenta. Það var búið að hlekkja það fast við bryggju og byggja við það hjólagrindur og póstkassa og allt mögulegt- mjöög spes. Það gerðist reyndar eitt miður skemmtilegt (þó það hafi kannski verið soldið fyndið) þennan daginn, en þegar við vorum að rúnta frá miðbænum í átt að austur amsterdam uppgötvuðum það að það var einhver skrýtinn gaur að elta okkur á hjóli. Við fylgdumst lengi með honum, og stoppuðum oft að kíkja á hjólið hans daða eða kortið, og alltaf stoppaði gaurinn og þóttist vera að tala í símann eða læsta hjólinu sínu o.s.frv. Á endanum tókum við krappa U-beygju og hjóluðum eins hratt og við gátum í hina áttina, og sáum hann svo ekki meir. Okkur fannst þetta satt að segja bara fyndið, en eftir á urðum við soldið paranoid og vorum alltaf að kíkja til baka að athuga hvort við sæjum hann. Gauranir sem vinna með Daða sögðu að þetta hefði líklega bara verið vasaþjófur sem hefði tekið eftir því að við vorum útlendingar, og hefði verið að bíða færis. Voðalega óþægileg tilfinning, satt að segja, þó þetta sé fyndin saga að segja vinnufélögunum. Gaurarnir sem Daði vinnur með eru víst bara hressir, amk skreið Daði heim mjööög sætkenndur og hress miðvikudagsnóttina þegar allir fóru saman út að borða um daginn út af afmæli einnar gellunnar. Því miður var hann ekki alveg jafn hress daginn eftir, þegar hann þurfti að fara á fætur eftir fjögurra tíma svefn... Amk var hann ekki alveg jafn myglaður og yfirmaður hans, þannig að þetta var sosum ekki svo slæmt.
Nú ætla foreldrar hans Daða að kíkja í heimsókn til okkar í næsta mánuði og okkur hlakkar bara til! Svo kemur mín familía í nóvember og kannski katja vinkona mín í desember, ég segi bara verið velkomin!
Jæja, nú er pítsan mín tilbúin, hann Daði tók það að sér að elda handa mér í kvöld aldrei þessu vant. Maður gæti sko alveg vanist svona meðferð!
Eet smakkelig!
Groetjes, Helga

Monday, September 8, 2008

Gúrkutíð

Ég hef fengið kvartanir þess efnis að ég sé ekki að blogga nóg þessa dagana. Ástæða þess er einfaldlega sú að líf mitt er mjög óáhugavert þessa dagana. Bara vakna, hjóla í vinnuna, dútla mér á tilraunastofunni, hjóla til baka, kíkja í ræktina og svo drösla mér heim að eta. Um helgar kíkjum við Daði yfirleitt á opna markaðinn í Jordaan, sem er artsí trendí kaffihúsahverfið milli Westerpark (þar sem við búum) og miðbæjarins. Þar er hægt að kaupa grænmeti og ávexti, fisk og kjúkling, kryddpulsur, vín, safa, osta, hunang, brauð, snyrtivörur, kjöt og margt margt fleira. Þar í kring eru fullt af kaffihúsum og börum þar sem fólk sest niður og fær sér brunch og kaffi og slappar af eftir innkaupin. Það er mun ódýrara að kaupa inn þar heldur en í matvörubúðunum, auk þess sem úrvalið er betra og ferskara. Í næstu götu er lífræni markaðurinn, sem er ennþá girninlegri, en því miður of dýr fyrir fátæka stúdenta. Við erum sérstaklega að reyna að spara þessa dagana, þar sem við höfum verið dugleg að eyða í alls kyns stórræði. Fyrir utan rándýra tölvuskjáninn hans daða er þar er helst að nefna nýja fína sófann okkar (Ikea, náttúrulega) sem ég sit í einmitt núna. Nú getum við loks farið með svefnsófann okkar inn í svefnherbergi, en hann er svo lélegur sem sófi að það er varla hægt að sitja í honum þannig. Önnur stórkaup voru líka fjárfesting í (bammbarabamm) helgarferð í tilefni af 10 ára sambandsafmæli okkar Daða í nóvember!! Áfangastaðurinn er algjört hernaðarleyndarmál þar sem þetta er mín gjöf til Daða og hann hefur ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Ég get einungis ljóstrað því upp að með fargjaldi og gistingu í fjórar nætur borgum við rétt rúmlega 500 evrur. Þó að þetta sé vel sloppið setur þetta strik í reikninginn í plön okkar um að kaupa almennilegt rúm svo að hægt sé að bjóða upp á gistingu í svefnsófanum okkar. Mamma var meira að segja að hugsa um að kíkja í heimsókn í október með mæju frænku og jóhönnu (og jafnvel svönsu líka ;) og það væri voðalega gaman að bjóða þeim upp á gistingu. Það má alltaf skella einum eða tveimur í nýja flotta sófann og einum á dýnuna, og í versta falli má fjárfesta í bedda eða dýnu eða fá loftdýnu lánaða. Jæja, þetta verður bara allt að koma í ljós... Við erum alla veganna mjög til í heimsókn ;) Í síðasta mánuði keyptum við eyju í eldhúsið okkar, sem bætti við alveg fullt af skápa- og borðplássi í pínuponsulitla eldhúsið. Okkur vantar enn hillur í eldhúsið, samstæðu í stofuna, teppi á gólfið, alvöru borðstóla (sitjum á klappstólum), internetáskrift, skrifstofustól handa Daða o.s.fl, o.s.fl..... Svo var ég að sjá að espressovélabúðin í næstu götu selur draumavélina mína, á 400-500 evrur, og nú er ég farin að sjá hana fyrir mér í hillingum á nýja borðplássinu mínu- úff hvað það er stundum erfitt að vera námsmaður í útlöndum! Jæja, maður verður hérna í nokkur ár og það er nógur tími fyrir þess konar draumóra. Í millitíðinni fer mest af sparipeningum í rándýra miða heim til íslands um jólin þannig að jólagjafirnar verða væntanlega í hógværari kantinum ;) Ég vil einnig biðja fólk úm að sýna hófsemi í gjafavali handa okkur, þar sem maður verður víst að borga fyrir hvert einasta kíló sem maður tekur með heim í yfirvigt- sem sagt bara hugsa smátt þessi jólin (enda er það hugurinn sem gildir:).
Jæja, þá dettur mér ekkert meira rugl í hug eins og er, endilega skiljið eftir komment á síðunni ef ykkur liggur eitthvað hjarta. Annars bið ég bara vel að heilsa öllum vinum og vandamönnum og ég hlakka til að sjá alla um jólin!

Kv Helga