Sunday, November 23, 2008

Myndir!

Ég setti loksins inn myndir með síðasta pósti. Í millitíðinni hefur lítið gerst, nema kannski- jú- það er farið að snjóa!! Ekta jólasnjór liggur yfir öllu takk fyrir- ef þetta verður líka svona á morgun ætla ég sko að taka strætó í vinnuna takk fyrir. Þannig að, mamma og Jóhanna, muna að taka með hlýjar úlpur :) Sjáumst bráðum!!

Thursday, November 13, 2008

Ferðalangarnir miklu

Jæja, nú hef ég sko margt að blogga um. Fyrst af öllu komu foreldrar Daða og systir í heimsókn til okkar fyrir nokkru, og voru hjá okkur frá fimmtudegi til þriðjudags. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt saman, m.a. fórum við stelpurnar saman að versla, við fórum út að borða, fórum öll saman í siglingu um amsterdam og auðvitað kíktum við í söfn. Það er gaman að minnast á að að þar sem hún Anna Guðný vinnur hjá Þjóðminjasafninu vorum við með svona VIP passa inn á söfnin- fengum ókeypis aðgang og fengum meira að segja að fara fram yfir röðina (rennblautum túristahópum til mikillar gremju ;) Því miður fengum við ekkert spes veður, bara einn fallegan dag og nýttum hann sko til hins ýtrasta, kíktum á markað og fengum okkur sushi. Annars vorum við bara duglegust að lalla um og versla og fá okkur gott að borða, enda er það besta leiðin til að kynnast nýjum stöðum. Foreldrarnir gistu í skúrnum okkar og fannst það bara fínt, og litla Anna litla gisti á sófanum (því miður þurftum við að vekja hana þegar við forum á fætur á morgnana, en annars var það víst bara komfí). Við þökkum því bara fallega fyrir heimsóknina og hlökkum til þess að fá mömmu og jóhönnu í mánuðinum!
Svo aðalfréttirnar: ég og Daði héldum upp á 10 ára afmælið okkar með pomp og prakt með því að stinga af til Prag;) Þar sem ferðin var gjöfin mín til Daða, mátti hann ekki vita hvert við vorum að fara fyrr en í flugvélinni, þegar flugmaðurinn kom upp um leyndarmálið. Tékk-inn-ið var reyndar pínu vandræðasamt þar sem Daði þurfti að bregða sér frá skrifborðinu svo hann heyrði ekki nafnið á áfangastaðnum (dömunum fannst það voða fyndið og rómó). Í stuttu máli sagt var borgin yndisleg, hótelið okkar var í göngufjarlægð frá Karlsbrúnni og miðbænum og bara mjög hreint og fínt. Við svoleiðis átum á okkur gat yfir þessa fjóra daga, gúllas, reykt svínakjöt, bjór, kartöflupönnukökur, súrkál etc etc.. Kotkeilarnir hræódýrir, maður gat fengið flottan mojito eða daquiri fyrir fjórar evrur sem er ca helmingur af því sem maður borgar í amsterdam. Við kíktum líka á kommúnistasafnið og fórum í kommúnista-göngutúr með leiðsögumanni og lærðum fullt um flauelsbyltinguna, seinni heimsstyrjöldina og kommúnismann. Mér til mikillar gleði var Starbucks út um allt í borginni, og líka tékkneska útgáfan af þeim sem hét coffee heaven og var bara nákvæmlega eins. Einn daginn skelltum við Daði okkur í verslunarleiðangur og keyptum okkur (loksins) nýja skó, daði fékk flotta skó frá ecco og ég fékk ofursvöl brún leðurstígvel sem ég get troðið buxunum mínum ofan í. Það var fyndið að sjá hvað það var rosalega mismunandi verðlag milli bæjarhluta, maður gat borgað allt fra 28 kórónur fyrir bjór (ca evru) upp í 110 kórónur (yfir fjórar evrur) ef maður fékk sér sæti utan dyra á gamla torginu fyrir framan stóru gömlu klukkuna. Klukkan sú var reyndar mjög flott, sýndi allt sem gat hugsast sér (nema kannski hvað klukkan var ;) og á hverjum klukkutíma fór af stað mikið klukkuspil með gargandi krákum, dinglandi beinagrindum og fullt af dýrlingum sem snérust í hringi. Það var reyndar sama hvort maður var a skítugum bar eða trendí lounge, alltaf var þjónustufólkið jafn þumbaralegt og pirrað. Í besta falli var það kurteist og í versta falli allt að því dónalegt. Það var bara á starbucks sem að afgreiðslufólkið var brosandi og hresst, kannski einhverjar leifar frá kommúnistatímanum þegar allir voru hræddir við alla. Borgin sjálf er ofurfalleg, minnti okkur reyndar ótrúlega á Graz eða Salzburg, enda var þetta allt saman sama keisaradæmið hérna í gamla daga. Á hverju horni mátti sjá nær alla stíla sem hægt var að hugsa sér- gotneskan, rómverskan, art noveou, art deco, fúnkís stíl, módernsimi og svo af og til hræðilegar gráar massívar kommúnismamartraðir. Í úthverfunum gat maður séð blokkarhverfi dauðans, en við vorum ekkert að þvælast þangað. Einn daginn löbbuðum við upp að hæðinni við hliðina á kastalanum, en þar var risastór taktmælir sem búið var að reisa þannig að hann var í beinni sjónlínu við aðaltorgið. Í safninu lærðum við svo að þarna stóð ein stærsta stytta sem nokkurn tíman hefur verið byggð í evrópu og var hún af stalín ásamt rússneskum og tékkneskum fyrirmyndarþegnum. Það tók mörg ár og margar milljónir evra að byggja hana, og svo loks þegar það var búið var gaurinn dauður! Eftirmanni hans fannst að um of mikla persónudýrkun væri að ræða svo styttan var sprengd í loft upp, og stallurinn skilinn eftir á mest áberandi staðsetningu í Prag. Einhvers staðar heyrðum við reyndar að risastytta af michael jackson hefði verið sett þarna upp í tengslum við HisStory túrinn hans um evrópu, en á endanum var taktmælirinn settur upp til að minna á örar breytingar í landinu á síðustu öld. Talandi um breytingar- ekki gat ég séð á neinu að um kommúnistaríki væri að ræða, með mcDonalds og mango og alls kyns verslunum á hveru götuhorni. Okkur fannst sem sagt yndislegt að fara í smá haustfrí og við mælum hjartanlega með borginni í rómantískar helgarferðir ;) Ég set inn myndir við fyrsta tækifæri... (löt núna ;)

Kærar kveðjur frá okkur báðum til ykkar á skuldaeyjunni miklu,
Helga og Daði

Tuesday, October 21, 2008

Efteling

Bara stutt núna, enda er ég í vinnunni og á að vera gera annað :) Við fórum í skemmtigarð um helgina sem heitir Efteling og er svona ævintýragarður. Hugsaði sko mikið til svönsu og familíu, enda voru þarna heilu töfalöndin full af blómálfum, tröllum, austurlenskum prinsessum og ég veit ekki hvað. Rakel og Kara hefðu flippað út! Svo voru líka rússíbanar og þess konar herlegheit fyrir fullorðna, alltaf gaman af því. Þetta var mjög stór garður og alveg rosalega fallegur, en því miður voru veitingarnar týpískt hollenskar- bara franskar og borgarar og vont bakkelsi. Næst kem ég með nesti eins og allir hinir. Meira að segja kaffið var sami ljóti automatinn og ég neita að drekka úr (ókeypis!) í vinnunni, iss... En þetta var rosalega skemmtilegur dagur, ég set inn fleiri myndir þegar ég kem heim.
Begga var að segja mér að það hafi snjóað heima! Hér er bara rigning, dag eftir dag... Vonandi muna foreldrar daða að koma með regnhlífar og pollagalla ;)

Kv Helga

Friday, October 17, 2008

Hótel Helga

Nú erum við loks búin að kaupa rúm! Alveg æðislega flott Ikea rúm (Malm í eik, fyrir þá sem þekkja til). Þetta þýðir að nú er laus eitt stykku svefnsófi fyrir þreytta ferðalanga sem vilja koma í pílagrímsferð til Amsterdam. Svo tók Daði sig til um daginn og pússaði upp gólfið inni í garðhýsinu okkar og málaði loft og veggi. Þetta er orðið bara voða kósí, við hentum þangað inn sófanum og tölvuborðinu hans Daða þannig að þetta er orðið nýja uppáhaldsherbergið hans ;) Ég þarf að venjast því aftur að hafa hann ekki alveg yfir mér allan daginn í tölvunni að horfa á south park og svona, en það var satt að segja mjög truflandi fyrir heimalærdóminn. Samt sakna ég þess pínulítið að hafa hann hjá mér, en auðvitað get ég alltaf heimsótt hann út í kofa (nema ef það er rigning, þá nenni ég því ekki). Fyrir þá sem muna eftir hryllingssögum í sumar um ógéðslegar pöddur úti í garði, þá get ég tilkynnt það að við erum búin að taka garðinn í gegn og við sáum ekkert meira af þessum pöddum (bara eðlilegt magn af kóngulóm og svona). Þetta er bara alltaf að verða flottara hjá okkur!
Annars er það helst í fréttum að við fórum á tónleika um daginn til að sjá hana Emiliönu Torrini. Hún var að spila á Paradiso eina helgina og auðvitað gátu stoltir Íslendingar ekki sleppt tækifærinu til að sjá hana. Daði fór nú meira nauðugur viljugur með mér, en skemmti sér svo rosalega vel, alveg óvænt. Við hittum auðvitað fullt af íslendingum, og spjölluðum heilmikið við íslenskar mæðgur sem hafa búið í Amsterdam í mörg ár- alltaf hægt að "bonda" yfir þjóðarhörmungunu;) Hún Emiliana er auðvitað með alveg ótrúlega rödd og mjög skemmtilega framkomu, reyndar allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Hún virkar alltaf svona alvarleg og fínleg, en svo var hún með svoleiðis groddahúmor, algjör rugludallur og bara helv.. skemmtileg á sviði. Hún mætti í appelsínum kjól (litur hollensku konungsfjölskyldunnar), en sko bara út af því að hún tapaði veðmáli- Íslendingar töpuðu nefnilega fyrir Hollendingum í fótbolta kvöldið áður (mikill bömmer, ég var að horfa á með nokkrum vinum). Reyndar vakti það mikla athygli að einn stuðningsmaður íslenska liðsins gerði sér lítið fyrir og vippaði upp skilti eftir fyrsta markið gegn íslendingum sem á stóð..."We've got your money!". Mjööög umdeildur húmor, svona í ljósi þess að fullt af fólki (og stofnunum) gætu tapað fullt af peningum á þessu blessaða Icesave. Fólk hló víst í stúkunni að þessu, en verðir voru fljótir að biðja gæjann um að taka niður skiltið (það var bara upp í þrjár mínútur). Það kom ekki í veg fyrir það að myndir af þessum "atburð" voru í öllum blöðum, og myndir af gaurnum líka. Hann gengur líklega um með húfu í dag.....
Jæja, þarf að fara að drífa mig. Það er "opinn dagur" á blóðbankanum í dag og ég bauð mig fram við að aðstoða (við fáum 100 evrur fyrir;). Á morgun ætla ég svo með nokkrum krökkum í svona skemmtigarð sem er í ca 2ja tíma fjarlægð frá Amsterdam, svona Disney garður Hollendinga. Þetta verður því ekki afslappandi helgi fyrir fimmaur! Í næstu viku koma svo foreldrar Daða og systir og okkur hlakkar voða til að fá heimsókn, erum strax að byrja að plana hvað við ætlum að gera og hvar við viljum borða og svona. Mamma hans daða á svo ókeypis passa í öll söfnin (enda vinnur hún í þjóðó) svo við getum loksins séð eitthvað af þessum söfnum í borginni (erum mjög lélegir túristar...).
Ég bið voða vel að heilsa öllum, vonandi líður bara öllum vel! Og endilega skrifa comment ef þið lesið, alltaf gaman að frétta eitthvað ;)

Tuesday, October 7, 2008

Síðasti af eyjunni slökkvi ljósin

Það er voða skrýtið að fylgjast með vitleysunni heima hérna í útlöndum, ég verð nú að segja að við erum voða glöð að vera erlendis og löngu búin að skipta peningunum okkar í evrur... Það er reyndar lúmskt gaman að umreikna tekjurnar okkar í krónur þessa dagana, þegar krónan var sem lægst þá vorum við daði með yfir hálfa milljón í tekjur eftir skatta! Manni langar bara til að fara út að versla;) Hmm, bíddu, við erum einmitt búin að því! Við fórum sem sagt í Ikea í gærkvöldi og splæsum í rúm með náttborði og öllu, og nú bíð ég heima spennt eftir Ikea-bílnum svo ég geti nú bráðum farið í vinnuna. Þá er sem sagt búið að redda gistingu handa væntanlegum gestum, þar sem nú eigum við auka svefnsófa :) Ég kíkti líka í bæinn að versla á laugardaginn með henni Anisku, ég keypti nefnilega glamour tískublað um daginn og í því reyndist vera afsláttarmiði upp á 20% afslátt í fullt af búðum á laugardaginn 4 okt. Við drifum okkur því, ásamt að því virðist nær öllum konum í amsterdam milli 15 og 45 því það var alveg smekkpakkað takk fyrir (svona máta fötin á ganginum stemming). Ég gerði bara góð kaup, keypti mér tvo boli og peysukjól í mangó (mangó er æðislegt núna!), tvö sjöl og smá snyrtivörur og allt með 20% afslætti. Stórgræddi sem sagt á þessu blaði, hehe. Það var bara rosalega gaman að kíkja svona í verslunarferð, enda hef ég hingað til bara staðið í þessu ein eða með Daða (ekki sérstaklega gaman) og það er bara miklu skemmtilegra að gera þetta með vinkonu sem maður getur slúðrað með og fengið sér kaffi eftirá og svoleiðis :)
Annars er það helst að frétta hérna frá Hollandi að haustið er komið í allri sinni dýrð, sem þýðir að það rignir nær hvern einasta dag, og þvílíka monsún rigningu hef ég varla séð. Á hverjum degi þurfum við Daði að drösla rennblautu hjólunum okkar út úr garðinum í gegnum íbúðina, klæða okkur upp í regngallann (pollabuxur og plastponsjó fyrir mig takk fyrir) og leggja af stað út í vottíðina og myrkrið. Ég þarf að hjóla í 30 mín í vinnuna (tekur samt lengri tíma í rok og rigningu) og þegar ég er mætt er hárið á mér út um allt, allt meikið runnið af og skórnir mínir rennblautir- þyrfti í alvöru að fjárfesta í gamaldags stígvélum. Maður gæti í raun alveg sleppt því að hafa sig til á morgnana, bara rúllað úr rúminu og drifið sig í vinnuna grútmyglaður og ómálaður. Reyndar hékk það þurrt í dag og í gær, svo það er enn von...
Hollensku tímarnir ganga ágætlega- ég mæti í háskólann einu sinni í viku eftir vinnu og er þar í þrjá og hálfan tíma, maður er sko ekki upp á sitt besta á þeim tíma get ég sagt ykkur. Þetta síast svona hægt og rólega inn, ég verð bara að reyna að vera duglegri að tala og vinna heimavinnuna. Við hittum einn úr kúrsinum um helgina, breskur tölvugaur sem heitir Will og fílar Makka meira en PC (svo hann og daði gátu haft miklar kappræður um það efni, enda er daði mikill anti-makki;). Reyndar átti þetta að vera hópferð á kaffihúsið á laugardaginn, en hinir úr hópnum mínum sem ætluðu að mæta afbókuðu sig eitt og eitt þar til að við vorum bara þrjú eftir (grenjandi rigningin hafði kannski einhver áhrif á mætingu). En það var bara fínt, enda kom okkur svona ljómandi vel saman og við kjöftuðum í langan tíma yfir nokkrum bjórum. Vonandi bara að maður kynnist betur þessum krökkum á námskeiðinu, alltaf gaman að eignast nýja vini. Jæja, þá dettur mér ekkert meira í hug eins og vel, ég hugsa bara fallega til ykkar á sökkandi þjóðarskútunni ;0
Endilega kommentið ef þið lesið þetta, hvað er í gangi hjá ykkur þarna hinum megin?
Kærar kveðjur, Helga pelga

Sunday, September 28, 2008

Nýjustu tíðindi frá Amsterdam

Mikið er nú langt síðan maður hefur bloggað. Það hefur nú ýmislegt smálegt skeð síðan síðast- kannski ber hæst í fréttum að við erum loks búin að fjárfesta í miðum heim til Íslands um jólin. Við fljúgum heim 20. desember, og förum heim föstudaginn 4. des. Þessi miðar voru sko ekki ókeypis, ca 70 þús kall á mann takk fyrir. Reyndar er þetta beint flug, og svo verður að taka með í reikninginn að krónan er nottlega í klósettinu núna, en þrátt fyrir það eru 1000 evrur ekkert að grínast með. Greinilega dýrt að vera Íslendingur í útlöndum! Við huggum okkur við það að núna fáum við borgað í evrum, þannig að við ættum að geta lifað eins og kóngar á Íslandi yfir jólin. Við tókum okkur einnig til og fjárfestum í löglegu neti, sem er sko tíu sinnum hraðara en netið sem við stálum af óþekktum nágranna. Í kaupunum fylgdi með stafrænt sjónvarp með fullt af extra stöðvum eins og Discovery science, travel and lifestyle, E-Tv, Sci-fi channel, Fashion -TV og annað skemmtilegt handa mér og svo einhverjar leiðinlegar strákastöðvar handa Daða eins og Motor world. Nú verðum við að passa okkur að festast ekki í einhverju sjónvarpsglápi allan daginn, maður er bara ekki vanur svona miklu úrvali. Hmm, hvað annað skemmtilegt er búin að gerast.... Jú, það var labuitje (lesist óvissuferð á labbinu mínu), og hver haldið þið að hafið skipulagt það annar en hún litla ég! Það er víst hefð fyrir því að nýja fólkið taki þátt í þessu á hverju ári og við stóðum okkur bara með prýði. Ég sá aðallega um að redda framlögum og gjöfum frá ýmsum fyrirtækum og fékk svo mikið að við eigum nóg í afgang til að borga fyrir jólagleði í desember. Dagurinn fór sem sagt þannig fram að við fengum köku (vel merkt Invitrogen) í morgunmat og fórum svo í næsta bæ þar sem við kíktum á stórt fjölmiðlasafn þar sem hægt var að skoða alls kyns skemmtileg brot úr hollensku sjónvarpi og prufa að vera þulur í fréttatíma eða kynnir í skemmtiþætti o.s.frv. Eftir hádegi spiluðum við strandar-blak, og ég var alveg jafn léleg og mig minnti (og er sko með marblettina til að sanna það). Því næst var haldið heim til eins okkar sem býr í þessum bæ og grillað, trallað, og djammað fram eftir. Þetta var sem sagt allt voða gaman, þó að mér hafi fundist safnið kannski síst af öllu þar sem nær allt efnið var hollenskt, en samstarfsólki mínu fannst þetta voðalega spennandi. Ég las fréttirnar á hollensku og svo voru brotin víst spiluð á skjám allan daginn, svo fólk kom upp að mér og hrósaði "fréttaflutningi" mínu, og það var víst alveg hægt að skilja upplesturinn minn.
Síðustu helgi tókum við Daði okkur til að rúntuðum um norður-Amsterdam, en maður verður að hjóla á ferju-stoppistöðina og sigla svo yfir sundið sem aðskilur norður og suður amsterdam. Skrýtið hvað borgin er allt öðruvísi þar, og gaman að skoða allt bryggjuhverfið þarna. Við fundum meira að segja hverfi byggt við höfnina sem var eingöngu fyrir nemendur (svona risastórir stúdentagarðar). Þetta var voða bóhem allt saman, svona gáma-íbúða stiíll, og svo var meira að segja gamalt skemmtiferðaskip þarna við bryggju sem var búið a breyta í húsnæði fyrir stúdenta. Það var búið að hlekkja það fast við bryggju og byggja við það hjólagrindur og póstkassa og allt mögulegt- mjöög spes. Það gerðist reyndar eitt miður skemmtilegt (þó það hafi kannski verið soldið fyndið) þennan daginn, en þegar við vorum að rúnta frá miðbænum í átt að austur amsterdam uppgötvuðum það að það var einhver skrýtinn gaur að elta okkur á hjóli. Við fylgdumst lengi með honum, og stoppuðum oft að kíkja á hjólið hans daða eða kortið, og alltaf stoppaði gaurinn og þóttist vera að tala í símann eða læsta hjólinu sínu o.s.frv. Á endanum tókum við krappa U-beygju og hjóluðum eins hratt og við gátum í hina áttina, og sáum hann svo ekki meir. Okkur fannst þetta satt að segja bara fyndið, en eftir á urðum við soldið paranoid og vorum alltaf að kíkja til baka að athuga hvort við sæjum hann. Gauranir sem vinna með Daða sögðu að þetta hefði líklega bara verið vasaþjófur sem hefði tekið eftir því að við vorum útlendingar, og hefði verið að bíða færis. Voðalega óþægileg tilfinning, satt að segja, þó þetta sé fyndin saga að segja vinnufélögunum. Gaurarnir sem Daði vinnur með eru víst bara hressir, amk skreið Daði heim mjööög sætkenndur og hress miðvikudagsnóttina þegar allir fóru saman út að borða um daginn út af afmæli einnar gellunnar. Því miður var hann ekki alveg jafn hress daginn eftir, þegar hann þurfti að fara á fætur eftir fjögurra tíma svefn... Amk var hann ekki alveg jafn myglaður og yfirmaður hans, þannig að þetta var sosum ekki svo slæmt.
Nú ætla foreldrar hans Daða að kíkja í heimsókn til okkar í næsta mánuði og okkur hlakkar bara til! Svo kemur mín familía í nóvember og kannski katja vinkona mín í desember, ég segi bara verið velkomin!
Jæja, nú er pítsan mín tilbúin, hann Daði tók það að sér að elda handa mér í kvöld aldrei þessu vant. Maður gæti sko alveg vanist svona meðferð!
Eet smakkelig!
Groetjes, Helga

Monday, September 8, 2008

Gúrkutíð

Ég hef fengið kvartanir þess efnis að ég sé ekki að blogga nóg þessa dagana. Ástæða þess er einfaldlega sú að líf mitt er mjög óáhugavert þessa dagana. Bara vakna, hjóla í vinnuna, dútla mér á tilraunastofunni, hjóla til baka, kíkja í ræktina og svo drösla mér heim að eta. Um helgar kíkjum við Daði yfirleitt á opna markaðinn í Jordaan, sem er artsí trendí kaffihúsahverfið milli Westerpark (þar sem við búum) og miðbæjarins. Þar er hægt að kaupa grænmeti og ávexti, fisk og kjúkling, kryddpulsur, vín, safa, osta, hunang, brauð, snyrtivörur, kjöt og margt margt fleira. Þar í kring eru fullt af kaffihúsum og börum þar sem fólk sest niður og fær sér brunch og kaffi og slappar af eftir innkaupin. Það er mun ódýrara að kaupa inn þar heldur en í matvörubúðunum, auk þess sem úrvalið er betra og ferskara. Í næstu götu er lífræni markaðurinn, sem er ennþá girninlegri, en því miður of dýr fyrir fátæka stúdenta. Við erum sérstaklega að reyna að spara þessa dagana, þar sem við höfum verið dugleg að eyða í alls kyns stórræði. Fyrir utan rándýra tölvuskjáninn hans daða er þar er helst að nefna nýja fína sófann okkar (Ikea, náttúrulega) sem ég sit í einmitt núna. Nú getum við loks farið með svefnsófann okkar inn í svefnherbergi, en hann er svo lélegur sem sófi að það er varla hægt að sitja í honum þannig. Önnur stórkaup voru líka fjárfesting í (bammbarabamm) helgarferð í tilefni af 10 ára sambandsafmæli okkar Daða í nóvember!! Áfangastaðurinn er algjört hernaðarleyndarmál þar sem þetta er mín gjöf til Daða og hann hefur ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Ég get einungis ljóstrað því upp að með fargjaldi og gistingu í fjórar nætur borgum við rétt rúmlega 500 evrur. Þó að þetta sé vel sloppið setur þetta strik í reikninginn í plön okkar um að kaupa almennilegt rúm svo að hægt sé að bjóða upp á gistingu í svefnsófanum okkar. Mamma var meira að segja að hugsa um að kíkja í heimsókn í október með mæju frænku og jóhönnu (og jafnvel svönsu líka ;) og það væri voðalega gaman að bjóða þeim upp á gistingu. Það má alltaf skella einum eða tveimur í nýja flotta sófann og einum á dýnuna, og í versta falli má fjárfesta í bedda eða dýnu eða fá loftdýnu lánaða. Jæja, þetta verður bara allt að koma í ljós... Við erum alla veganna mjög til í heimsókn ;) Í síðasta mánuði keyptum við eyju í eldhúsið okkar, sem bætti við alveg fullt af skápa- og borðplássi í pínuponsulitla eldhúsið. Okkur vantar enn hillur í eldhúsið, samstæðu í stofuna, teppi á gólfið, alvöru borðstóla (sitjum á klappstólum), internetáskrift, skrifstofustól handa Daða o.s.fl, o.s.fl..... Svo var ég að sjá að espressovélabúðin í næstu götu selur draumavélina mína, á 400-500 evrur, og nú er ég farin að sjá hana fyrir mér í hillingum á nýja borðplássinu mínu- úff hvað það er stundum erfitt að vera námsmaður í útlöndum! Jæja, maður verður hérna í nokkur ár og það er nógur tími fyrir þess konar draumóra. Í millitíðinni fer mest af sparipeningum í rándýra miða heim til íslands um jólin þannig að jólagjafirnar verða væntanlega í hógværari kantinum ;) Ég vil einnig biðja fólk úm að sýna hófsemi í gjafavali handa okkur, þar sem maður verður víst að borga fyrir hvert einasta kíló sem maður tekur með heim í yfirvigt- sem sagt bara hugsa smátt þessi jólin (enda er það hugurinn sem gildir:).
Jæja, þá dettur mér ekkert meira rugl í hug eins og er, endilega skiljið eftir komment á síðunni ef ykkur liggur eitthvað hjarta. Annars bið ég bara vel að heilsa öllum vinum og vandamönnum og ég hlakka til að sjá alla um jólin!

Kv Helga

Friday, August 15, 2008

hæhæ allir!

Biðst afsökunar á langri pásu, en eins og er erum við bara með eina fartölvu sem þýðir það að ég er með aðgang þegar honum Daða þóknast að leggja frá sér tölvuna. Ég sá að fullt af fólki hafði skrifað við síðasta póst, það er alltaf gaman að sjá að einhverjir eru að skoða bullið í mér- endilega haldið áfram að kommenta ;) Og það sem er helst í fréttum...
Júb, það svo virðist sem hann Daði sé kominn með vinnu (7,9,13...). Þetta er ekki vinnan í Rotterdam heldur mun nær (sem betur fer). Þetta er sem sagt alþjóðlegt fyrirtæki með útibú rétt fyrir utan Amsterdam og þeim vantar tölvugaur þessa dagana. Vinnan virðist mjög svipuð þeirri sem Daði hafði heima á safninu, og honum leist bara vel á tölvunördana sem tóku viðtalið við hann (hann gat meira að segja botnað Star- trek tilvitnunina þeirra). Fyrst átti að boða hann í annað viðtal, en svo leist fólkinu víst svo vel á hann að þau vildu bara fá hann sem fyrst. Ég er viss um að glænýju jakkafötin sem við keyptum handa honum helgina áður (á útsölu sko) höfðu jákvæð áhrif, þarf að sýna ykkur mynd af kappanum í fullum stríðsbúning. Hann er ekki búinn að skrifa undir enn, en það er víst allt í burðarliðnum. Við krossum bara putta og vonum að ekkert komi upp á...
Við ákváðum svo að halda upp á þessar gleðifréttir með því að leigja okkur bíl á fimmtudagsmorguninn og keyra í skyndiheimsókn til Svönsu og Halla í Odense (ég var einmitt að hugsa til þín Gunnhildur, heima á Íslandi núna loksins þegar ég drífi mig;). Ferðin tók ekki nema ca 8 tíma og við vorum komin þangað rétt upp úr fimm. Þau eru sem sagt ný flutt í nýbyggt krúttlegt hverfi í Fraude og eru mjög lukkuleg þar ásamt helmingnum af Íslendingunum í odense (=litla Reykjavík). Hún Rakel litla þekkti mig strax og kom hlaupandi á móti mér, en Ísabella tók aðeins lengri tíma til að taka mig í sátt. Við eyddum svo helginni í miklum lystisemdum og afslöppun og Halli kokkaði ofan í okkur gourmet mat og svo var hlaðborð á hverjum morgni. Við kíktum í miðbæ Odense á laugardagsmorguninn og töltum þar um, alveg gullfallegur lítill bær og ég gæti sko alveg ímyndað mér að búa þarna. Um kvöldið var brjálað íslendinga-grill í götunni þeirra, og allir átu grillmat, skáluðu í víni og tópas, og að lokum voru dregnir fram gítararnir og sungið langt fram á nótt. Þarna voru víst nokkrir Danir líka að væflast eitthvað, með litlu kolagrillin sín og hræðslublik í augunum en urðu svo jafn glaðir og hinir þegar á leið kvöldið. Við bættum það sem sagt upp að hafa misst af verslunarmannahelginni þetta árið ;) Á sunnudaginn (þegar fólk var komið í gang) kíktum við svo á Egeskov sem er voða flott slott með páfuglum, leikvöllum, bíla og mótorhjólasafni (gaman fyrir daða), veitingastað og svo uppáhaldið mitt- garður með hengirúmum til afslöppunar. Á mánudagsmorguninn ákváðum við að dúlla okkur aðeins, fyrst stelpurnar voru í leikskólanum, og kíkja saman fullorðna fólkið í brunch í odense- hráskinka, rúgbrauð, djúsí jógúrt með berjum og múslí, pönnukökur, egg og beikon... Namm!! Vantaði bara freyðivínið (eða almennilegt kaffi...). Okkur fannst allt of snemma að fara af stað á um hádegi á mánudeginum en þetta var alveg rosalega gaman, og ekkert allt of dýrt að leigja bíl í fjóra daga (mun ódýrara en að fljúga). Ekki sakaði það að bíllinn eyddi eins og meðalstór kveikjari á hraðbrautinni.
Á miðvikudagskvöldið héldum við fyrsta opinbera matarboðið heima hjá okkur, buðum fjórum en áttum bara fjóra stóla svo að garðstólarnir okkar komu að góðum notum. Ég bauð sem sagt vinkonum mínum Anisku og Lussy af skrifstofunni, Xiwen fyrrverandi sambýlingi og mark kærasta Anisku. Við drógum fram svefnsófann og sjónvarpið okkar inn í stofu og settum þvottagrindina inn í svefnherbergið, kveiktum á kerti og settum smá tónlist á tölvuna, og þetta leit bara næstum því út eins og alvöru heimili. Hún Xiwen mætti meira að segja með deig og kjötfyllingu og framleiddi stóran skammt af kínverskum dumplings með matnum. Þetta var bara mjög vel heppnað, við kláruðum amk þrjár vínflöskur og nokkur staup af Tópas (fór misvel ofan í fólk get ég sagt ykkur) og svo var fimmtudagurinnmorguinn í vinnunni sérstaklega erfiður.....
Veðrið hérna hefur skánað alveg rosalega mikið, sem betur fer var rakinn bara í nokkra daga og síðan þá hefur veðráttan bara verið svipuð íslenskri sumarveðráttu. Moskítóflugurnar hafa hægt aðeins á ásókninni og við erum meira að segja búin að fjárfesta í rafmagnsflugnaspaða ef þær skyldu snúa aftur.
Svo bið ég bara svaka vel að heilsa, söknum ykkar allra voða mikið!!
(p.s. lofa að setja inn myndir bráðlega).
Kv Helga

Monday, July 28, 2008

Jungle boogie

úff, hvað það er viðbjóðslega, hrikalega, ógéðslega rakt hérna! Örugglega 70 % raki, maður verður blautur af því bara að labba um án þess að svitna. Ég byrja alltaf hjólaferðarnar á morgnana í jakka (ef það skyldi rigna) og léttri peysu (því það er svo mikil loftræsting í vinnunni) en enda alltaf hálfnakin þegar áfangastað er náð. Rúmið er rakt á kvöldin þegar við leggjumst í það og andlitið á manni alltaf einhvern vegin feitt vegna rakans (þess vegna er ég eins og 15 ára unglingur þessa dagana). Svo ekki sé minnst á moskítuflugurnar sem gæða sér á manni á næturna, en ég er komin með amk. 7 bit sem ég man eftir, og svo heldur kláðinn fyrir manni vöku nótt eftir nótt. Við horfðum á survival-þátt um daginn (þar sem brjálaður breti lætur kasta sér út í fjandsamlegustu umhverfi jarðarinnar og reynir að lifa þar af með ekkert nema vasaklút og bréfaklemmu) og gaurinn var að flækjast um regnskóga indónesíu og ég held bara að við daði höfum fundið fyrir mikilli samkennd með honum. Þegar hann sýndi áhorfendum skordýrabitin sín, rennblaut fötin og mauksoðnar tærnar eftir daginn kinkuðum við bæði kolli og hugsuðum með okkur "oooh, hvað ég skil þig vel, við erum sko á sömu blaðsíðu".
Jamm, útlandsdraumurinn er ekki jafn sætur og hann var heima á fróninu, mig langar í ferska íslenska loftið og góða veðrið sem ég les um í fréttablaðinu! Ég hefði reyndar líka gert mér grein fyrir blíðviðrinu þó ég hefði ekki aðgang að blaðinu, þar sem það hefur ekki sála verið á netinu síðan löngu fyrir helgi (og ekki heldur tölvunördarnir sem daði þekkir). Bara eins og ísland eins og það leggur sig sé orðið sambandslaust, en öllum er sama þar sem þeir liggja allir á bakkanum í Laugardagslaug eða úti í garði og drekka bjór og borða ís. Hvers á ég að gjalda!! Þetta er allt saman farið að leiða af sér vísir af heimþrá, ég er farin að hugsa óvenjulega mikið um familíuna heima, vini mína þar, og svo nottlega stóru systir í danmörku (sem virðist nær og nær á kortinu í hvert skipti sem ég lít á það). En þar sem Daði er enn í atvinnuleit, og flugmiðar í sögulegu hámarki ætlum við að halda í okkur fyrst um sinn. Líklegra að maður splæsi í bílaleigubíl og bara keyri þetta, þar sem flugmiðar fram og til baka eru ca 40-60 þús kall á haus á meðan bíl+bensín bara getur ekki verið svona dýrt. Ég kann ekki einu sinni að leita að lestarferð þarna á milli þar sem þetta er á milli landa og ekki eru til neinar beinar ferðir á milli odense og amsterdam. Ég held að heimþráin myndi líka dofna ef við hefðum það huggulegra heima við, en enn eigum við engan sófa eða samstæðu undir sjónvarpið í stofu+ allt dótið okkar er enn í flutningi með samskip. Ég er viss um að allir sem þetta lesa eru að njóta sumarsins meira en við....

Friday, July 25, 2008

Víhí- loks búin að fatta hvernig maður setur inn íslenska bókstafi í vinnutölvunni! Ég sit hér og læt mér leiðast, er að bíða eftir sendingu og get ekkert gert fyrr en ákveðin vara kemur. Tók mér frí í gær þegar það lá ljóst fyrir að hún myndi ekki koma þann daginn. Það var reyndar mikil lukka, enda reyndist þetta vera fallegasti dagur sumarsins hingað til, og ég naut hans til fullnustu. Ég byrjaði á því að skokka í stóra garðinum sem er rétt hjá okkur. Þar var mikið af fólki að skokka, sóla sig við vatnið, vaða, leika sér með börnunum sínum, í lautarferðum og ég veit ekki hvað. Eftir á dró ég Daða aftur út í garðinn, en þar er gömul verksmiðja sem breytt hefur verið í kaffhús, bari og gallerí af ýmsum stærðum og gerðum. Þar splæsti ég á hann morgunmat og kaffi, og svo dúlluðum við okkur í bænum og sleiktum sólina. Hollendingar kunna sko að njóta þess þegar sólin skín- allir garðar pakkaðir og meðfram öllum síkjum lágu allir í sólbaði með vínflöskur. Sumir tylltu sér á litla fljótandi pramma meðfram síkjunum, þar sem bátar geta lagt að, og allir bátaeigendur notuðu tækifærið til að sýna sig og sjá aðra. Og þeir sem voru svo heppnir að búa við síkin sjálf, drógu bara matarborðið út á tröppurnar sínar, eða settust í stóla við innganginn, og voru jafnvel með kertaljós og þriggja rétta máltíð um sjöleitið, mjög spes stemming að labba þar um þar sem maður fékk það á tilfinninguna að maður væri að vaða inn í borðstofuna hjá fólki á skítugum skónum. Ég notaði auðvitað tækifærið og skellti mér í búðir á meðan Daði lék sér í tölvunni á næsta bar, keypti mér pils í mangó á útsölu og sjal og svona smotterí. Auðvitað hafði tilgangurinn verið að kaupa sér almennilegar buxur (enda tók ég bara einar með mér út) en pils virkar alveg jafn vel og er miklu þægilegra þegar veðrið er svona fallegt. Veðrið er líka fallegt í dag, kannski ekki alveg jafn gott, og um helgina á það að vera lala. Planið var um helgina að kíkja í flotta líkamsræktarstöð sem er stutt frá mér, þau eru með frían dagpassa fyrir nýja kúnna og mig langar að prufa að mæta (er orðin soldið þreytt á að skokka bara). Svo er spurning hvort maður skelli sér ekki á einhvern útimarkað um helgina, ef þannig viðrar og ekkert annað kemur upp. Svo er ég búin að kaupa múffu-form í Ikea, þannig að það er aldrei að vita nema maður baki eins og eina uppskrift af múffum um helgina og vígi þannig ofninn góða. Reyndar gekk ég í gegnum eld og brennistein til þess að finna heilhveiti hérna, en það var ekki til í helstu matvöruverslunum og þurfti ég að fara í fína lífræna sérverslun til að finna það. Hollendingar virðast helst vilja kaupa kökur og brauð, og í besta falli baka upp úr tilbúnu mixi (voru til svona 20 mismunandi brauð- og köku mix í pakka í bökunarhillunum en bara ein gerð af hveiti)- það virðist enginn reikna með því að maður geri þetta bara sjálfur frá A til Ö. Afskaplega er maður eitthvað myndarlegur...
Daði var að heyra frá Samskip, reyndar bara að þeir séu að bíða eftir því að einhver gaur komi til baka frá Íslandi áður en þeir taka ákvörðun, en maðurinn sagði reyndar í brefinu að bæði CV-ið og viðtalið hefðu verið mjög "impressive", þannig að þetta lítur alla veganna vel út. Við ætlum því að hinkra aðeins með net-tengingu heima, amk þar til við vitum hvað við borgum mikið mánaðarlega fyrir gas, rafmagn og sjónvarp og svoleiðis. Um leið og ég fæ tengingu lofa ég að fara að hringja aftur í fólk í gegnum tölvuna, en ég má náttúrulega ekki gera það í gegnum vinnutölvuna.
Ég set inn myndir í náinni framtíð, þangað til verið bara dugleg að skrifa í gestabókina þannig að ég sjái hvort einhver sé nú að lesa þetta (er búin að leyfa komment frá öllum núna).
Kærar kveðjur fra Hollandi,
Helga (og Daði)

Sunday, July 20, 2008

Ikea rúlar

Mmm, sit á kaffihúsi í göngufjarlægð frá íbúðinni minni sem heitir Beyglur og Baunir og serverar girnilegar beyglur og múffur og skítsæmilegt kaffi. Mikið er gaman að búa í svona skemmtilegu hverfi þar sem er mannlíf og kaffihús, í stað þess að búa á enda veraldar eins og hingað til. Við fórum í pílagrímsferð til Ikea á föstudaginn, ásamt Anesku sem var svo indæl að bjóða fram bílinn sinn til húsgagnaflutninga. Við keyptum alls kyns dót og drasl, en það mikilvægasta var nottlega matarborðið okkar! Mikið er gaman að þurfa ekki að borða morgunmatinn sinn á þess að sitja við borð, matur bara bragðast ekki eins nema maður geti slappað af og lesið blaðið í rólegheitum. En auðvitað passaði borðið ekki í skottið, munaði ca hálfum sentimeter á því og olli það okkur mikilli gremju og óhamingju eftir langan eftirmiðdag í Svíaveldi. En sem betur fer er ekki svo dýrt að láta senda mublur, um 29 evrur fyrir borðið okkar- eini gallinn var að við h öfðum lofað okkur í mat hjá Gesti (leiðbeinanda mínum) og þurftum að taka lest um þrjúleitið daginn eftir, og þó að Ikea gaurinn lofaði því upp á trú og æru að borðið yrði komið fyrir 1 þá trúðum við því svona mátulega. Enda stóð það heima að ekkert bólaði á borðinu kl 2, og eftir erfitt símtal á hollensku (það tala sem sagt ekki allir ensku hérna) komumst við að því að bíllinn hefði lent í óhappi og væri bara rétt ókominn. Við vorum hér um bil á leiðinni út um dyrnar kl 3, ósátt mjög, þegar þeir komu loks, svo að allt fór vel á endanum og við gátum notið matarins hjá Gesti og Michelle, og börnunum hans þremur. Hann keyrði okkur fyrst um héraðið sitt, sem er mjög fallegt og með fullt af eldgömlum húsum og köstulum og eiginlega bara eins og úr ævintýri. Við borðuðum allt of mikinn góðan mat, drukkum allt of mikið vín og bjór og fórum allt of seint heim= mjög skemmtilegt kvöld fyrir okkur bæði. Gestur og Daði eru báðir forfallnir tölvu-og tækjanördar af hæstu gráðu og gátu því talað mikið um Atari leikjatölvur og nýjustu farsímana og ég veit ekki hvað.
Annars erum við bara mjög ánægð í nýju íbúðinni okkar þessa dagana, vantar helst bara sófa og sjónvarpsskenk, og einhverjar hillur til að troða draslinu okkar í. Við ætlum samt að bíða með stærstu fjárfestingarnar þangað til að Daði fer að fá einhverjar tekjur, við getum alveg lifað af í útlegustemmingunni þangað til.
Hún amma átti níræðisafmæli í fyrradag, og var úti að borða með familíunni þegar ég hringdi í hana til að óska henni til hamingju. Skemmtileg tilviljun að annað merkismenni, hann Nelson Mandela, átti níræðisafmæli á sama degi, og ekki er þar leiðum að líkjast. Ég vona bara að allir hafi skemmt sér vel og óska þess að ég hefði getað verið þarna L

Ég skal setja inn nýjar myndir af íbúðinni þegar hún er orðin soldið flottari!

Sunday, July 13, 2008

Síkjakafarinn

Hæhæ aftur. Jæja, hvað er helst í fréttum? Jú, maður er ekki lengur einhleypingur þar sem hann Daði er mættur á svæðið! Jei ;) Auðvitað gekk þetta ekki snuðrulaust fyrir sig, auminginn lenti í því að þegar hann var kominn til Eindhoven uppgötvaði hann að síminn hans virkaði ekki í útlöndum. Til að toppa allt saman, þá virkaði hvorugt kortið hans í miðasjálfsölunum, en hann þurfti að kaupa lestarmiða til Amsterdam þar sem ég ætlaði að taka á móti honum. Hvorki símasjálfsalarnir né miðasjálfsalarnir vildu kannast við evrurnar hans, og þar sem þetta var að kvöldi til, var enginn við til að selja honum miða á annan máta... Nú voru góð ráð dýr! En sem betur fer gat hann reitt sig á góðvild ókunnugra, þar sem hann rakst á indælt hollenskt par á flugvellinum sem gat keypt fyrir hann lestarmiða og svo leyfði leigubílastjórinn honum að nota símann sinn til að hringja í mig. Ég var farin að undrast um kauða, enda gat ég ekkert hringt í hann og ég vissi að hann hafði ekki leiðbeiningar til að komast til mín (enda hafði ég ætlað að sækja hann á lestarstöðina). En allt er gott sem endar vel, og hann skilað sér á endanum í hendur viðtakanda. Við eyddum svo helginni bara í afslöppun og stúss, fengum okkur gott að borða og svona og nutum blíðviðrisins sem hann flutti með sér frá Íslandi. Í dag fórum við ásamt xiwen svo í pílagrímsferð til Mediamark, sem er risastór raftækjaverslun, og fjárfestum í netmyndavél. Ef ónefndir fjölskyldumeðlimir gætu bara drifið sig í að vera nettengdir af og til (á sunnudögum til dæmis) þá er hægt að tala við okkur og sjá okkur í leiðinini (bara til öryggis, ef við skyldum breytast mikið í útlöndum). Eftir á fórum við í mekka húsmæðra- og feðra, Ikea!! Þar gæddum við okkur á laxi og kjötbollum og létum okkur dreyma um hvað við ætlum að búa flott og smekklega þegar við komumst úr kvennafangelsinu hérna á Louweshoek. Annars er það helst í fréttum að á morgun eigum við að skrifa undir samning við íbúðareigandann og þá er ekkert því til fyrirstöðu að við getum flutt inn í fyrirheitna framtíðarheimilið. Spurning hvernig þetta fer, enda höfðum við nokkrar spurningar um samninginn og sú sem hefur séð um þetta fyrir okkur virðist hálfgerð loftbóla, en við vonum bara hið besta. Ég er amk. mjööög tilbúin til að fá mína eigin íbúð, með alvöru ofni og sturtu sem flæðir ekki upp úr. Hmmm, hvað annað... Jú, smá ævintýri gerðist í síðustu viku þegar ég fór út að borða með stelpunum úr vinnunni. Við fórum á ítalskan veitingastað hérna skammt frá (Perla di Roma), sem hún Lussi var búin að mæla með, en hún er Rómarbúi í húð og hár og ætti að vita svona hluti betur en aðrir. Við pöntuðum líter af húsvíninu og deildum því fjórar (mig grunar samt að ég hafi fengið góðan bróðurpart af flöskunni) og skemmtum okkur vel fram eftir kvöldi. Þegar við ætluðum loksins heim lenti ég í þeirri ólukku að missa lyklana mína í síkið við hliðina, en ég hafði læst hjólinu mínu við grindverkið á brúnni. Þetta var sem betur fer grunnt síki, og þar sem við sáum í lyklana ákváðum við (í kæruleysi augnabliksins) að ég myndi bara hoppa úr buxunum út við vegg, klæða mig í pollabuxurnar hennar Anisku og klifra niður í síkið til að ná í lyklana. Annan eins viðbjóð hef ég aldrei stigið í, vil ekki einu sinni hugsa um hvað var þarna niðri... En ég náði lyklunum upp úr jökkinu og hún lussy sýndi dulda krafta þegar hún hosaði mig aftur upp á brúnna. Eftir á að hyggja var þetta kannski ekki ábyrgðarfyllsta lausnin, en það fór allt vel (sem betur fer) og eftir góða sturtu var ég eins og ný. Héðan í frá verð ég ekki með alla lyklana mína á sömu lyklakippu og hjólalykillinn.....
Eins og þið ættuð að muna, þá hitti ég kunningjakonu Iðunnar svilkonu á íslendingahátíð í Rotterdam fyrir nokkru. Hún lét mig vita af því um daginn að Samskip væri að leita að tölvufólki og hvort að Daði hefði nokkuð áhuga. Hann sendi á þá CV og fékk svo viðtal á Íslandi, sama dag og hann flaug út. Þeim leist bara vel á hann og hann á að hafa samband ið skrifstofuna í Rotterdam eftir helgi. Vinnan er víst fín og ágætlega borguð (betur en mín amk.), en sá er galli á gjöf Njarðar að hún er í Rotterdam- 1-2 klst með lest hvora leið takk fyrir! Við vitum að fólk gerir þetta, og stundum kemur vinnan til móts við mann á ýmsa vegu, en samt, 2-4 klst á dag með lest er afskaplega mikið... Maður vegur þetta bara og metur, sakar ekki að líta á þetta. Jamm, nú er ég sybbin og ætla að fara að sofa- var voða dugleg að skokka með Xiwen í morgun eftir kröftugan El Salvador kaffibolla ala Kaffitár. Ég set inn myndir við tækifæri af uppáhalds Víkingnum mínum og ævintýrum hans í landi syndarinnar. Þangaði til bið ég bara vel að heilsa og mun hugsa fallega til allra heima- vonandi fáið þið betra veður en við þessa dagana ;)

Sunday, July 6, 2008

Hollendingurinn hjólandi

Búin að kaupa mér hjól!! Loksins er maður orðinn alvöru Hollendingur, en ekki bara heimskur túristi á tveimur jafnfljótum. Í gær fór ég í heimsókn til Anisku, en hún bauð okkur í ekta hollenskar pönnukökur heima hjá sér. Rétt hjá henni er þessi flotta hjólabúð sem selur notuð og ný hjól, og það tók mig bara kortér að finna tiltölulega velmeðfarið hjól á 150 evrur (maður á ekki að kaupa of flott hjól, því þá er þeim bara stolið). Auðvitað þurfti maður að splæsa formúu í lás, en lásarnir hér eru engin smá smíði- þykkar akkeriskeðjur og helst tveir lásar per hjól. Ágætis regla er að lásinn kosti tæplega þriðjung af verði hjólsins, og ég er að tefla á tæpasta vað með því að vera bara með einn lás á mínu hjóli (ég kaupi annan þegar ég fæ útborgað). Hingað til hafði ég bara fengið hjólið hennar Xiwen lánað, en það er pínulítið og ekki beint traustvekjandi þar sem það er svona sambrjótanlegt (?) og maður hefur það á tilfinningunni að að að gæti dottið í sundur á hverju augnabliki. En ég mætti sem sagt í pönnukökupartíið hennar Anisku á "glænýju" hjóli og gæddi mér á ljúffengum pönnukökum með beikoni, geitaosti og hunangi- mjög spes en mjög gott líka ;) Planið var að allir myndu svo spila blak í Westerpark á eftir (verður hverfisgarðurinn minn þegar ég flyt) en því var frestað vegna veðurs svo við fengum okkur bara kaffi í Bakkerswinkel í staðin, sem er gömul krúttlega verksmiðja í westerpark. Þetta eru voða krúttlegar byggingar, úr rauðum múrstein og alls kyns flúri, og nú eru þarna barir, gallerí og kaffihús. Eg hef lengi verið að leita að þægilegu kaffihúsi til að lesa greinar og svoleiðis, en þessir fáu staðir sem ég hef fundið loka alltaf kl 6 á daginn og ég er að vinna til kl 5. En svo virðist sem leit minni sé lokið: í dag fór ég ásamt Xiwen og kínverskum vini hennar í borgarbókasafn Amsterdam, en það er risastórt og nútímalegt bókasafn á sjö hæðum með við höfnina, við hliðina á aðallestarstöðinni. Á efstu hæðinni er rosalega flott matstofa þar sem hægt er að fá ýmis konar girnilegan mat og sætindi, og meira að segja hægt að sitja úti og horfa yfir höfnina. Við erum búnar að ákveða að gera þetta vikulega, að kíkja á bókasafnið til þess að lesa greinar og chilla, en eins og allir sem eru í doktorsnámi vita verður maður að lesa mikið af greinum til þess að vera með á takteinunum. Heima hjá mér nenni ég næstum því aldrei að lesa, enda alltaf sofandi uppi í rúmi með grein á maganum eða andlega sofandi fyrir framan sjónvarpið með grein á maganum. En þetta stendur allt til bóta...

Saturday, June 28, 2008

Sex in the city (rólegur Daði, ég er að tala um myndina ;)

Jæja, mikið er rosalega leiðinlegt að vera netlaus. Vinur hennar Xiwen var reyndar búinn að laga routerinn í íbúðinni okkar, en hann virkaði í ca 2 daga áður en ég hætti að komast aftur á netið. Þannig að einu skiptin sem ég nota netið þessa dagana er í vinnunni og þegar ég stelst í tölvuna hennar Xiwen (sem einhverra hluta vegna getur tengst netinu í gegnum kapal, þó mín tölva geti það ekki- mig grunar að ég hafi einhvers konar leiðinlegan eldvegg). Það hefur nú ýmislegt gerst síðan ég bloggaði síðast- líklega er það mikilvægasta að ég er líklega búin að redda mér íbúð. Þetta var ekki sú sem ég vonaðist eftir, heldur minni og dýrari íbúð og hún er lengra frá vinnunni og ekki með húsgögnum :( Hið jákvæða er að hún er mun fallegri og í miklu skemmtilegra hverfi í amsterdam, og svo lengi sem daði fær vinnu tiltölulega fljótt þá ætti þetta að vera ekkert mál fyrir okkur. Ég sendi ykkur myndir um leið og ég get. Við getum flutt inn 14. júlí og íbúðin er mjög nýleg og tiltölulega smekklega uppgerð, með glænýjum heimilistækjum (m.a.s. uppþvottavél). Það er ekkert gestaherbergi, en rúmgóð stofa þar sem má troða gestum, garður og mjög snyrtilegt lítið baðherbergi með sturtu, þvottavél og þurrkara.
Annars er ég búin að vera mjög afslöppuð þessa viku, bara kíkja á útsölur og skokka og svona (dró Xiwen með mér, aumingja greyið. Hún er búin að fitna um ca 10 kíló frá því hún flutti til Hollands og vill endilega að ég gerist einkaþjálfarinn hennar. Erfitt verk, þar sem morgunmaturinn hennar er oreo kex og kvöldmaturinn hennar yfirleitt kæfa og djúsí vanillujógúrt- Where do I start!!).
Síðustu helgi kíkti ég með honum Gesti (leiðbeinanda mínum), konunni hans og tveimur af börnunum (julia og tomas) á 17.júní hátið íslendingafélagsins í Rotterdam. Þetta var bara svona kasúal grill, og auðvitað reyndist það svo að um leið og ég fór að spjalla við eina stelpur þá kom í ljós að við áttum sameiginlega vini. Stelpan heitir sem sagt Ester og er frá Vestmannaeyjum, gömul vinkona hennar Iðunnar (svilkonu) og kynnti meira að segja hana fyrir Tryggva bróður Daða. Konunni hans Gests, Michelle, fannst þetta voðalega fyndið og lýsandi fyrir litla þjóðfélagið okkar (um leið og við urðum voða æstar og kölluðum upp nöfn á íslensku þá vissi Michelle alveg hvað var að gerast ;). Ester er víst í íslenskum saumaklúbb, þar sem þær hittast á ca 6 vikna fresti og borða kökur, og ég er víst boðin að taka þátt í þeim sið. Gaman að sjá hvort það verði eitthvað úr þessu.
Í gær kíkti ég í bíó með nokkrum stelpum af stofnuninni, þ.á.m. Lussy ítalska nemanum og Anesku (báðar á skrifstofunni minni) og við sáum sex in the city í fallegasta bíói sem ég hef nokkurn tíman séð. Þetta var gamalt hús í miðbænum og var byggt eins og leikhús með freskum í loftunum og litlum stúkum og svoleiðis. Við fengum sem sagt prívat stúku þarna og stelpurnar sötruðu rauvín í glösum á meðan myndinni stóð. Rétt áður en myndin byrjaði hringdi auðvitað familían, þannig að ég hafði voða lítinn tíma til að tala við þau, sem ég hefði annars gjarnan vilja gera. Jæja, spjöllum bara betur næst. Myndin fannst mér mjög skemmtileg, og við hlóum mikið að henni. Við vorum reyndar allar sammála um að við þyrftum allar nauðsynlega að fara að versla meira og oftar í ræktina, en að lokum sættum við okkur bara við að fá okkur kokteila á escape við Rembrandtstorgið. Þar var slúðrað fram eftir nóttu (hverjum fannst hver sætur og hver væri örugglega hommi og svoleiðis) svo á endanum misstum við af síðasta sporvagninum og þurftum að bíða 40 mín eftir næturstrætó til að komast heim.
Í næstu viku verður líklega aðeins meira að gera hjá mér þar sem Gestur er að koma til baka af ráðstefnu þar sem hann var alla síðustu viku, þannig að letidögunum mínum er líklega lokið. Ég bara get ekki beðið eftir að losna úr íbúðinni minni á Louweshoek 226, sérstaklega þar sem ég uppgötvaði mér til hryllings um daginn að í eldhúsinu er allt krökkt af bústnum silfurskottum! Þær virðast búa bak við innréttinguna og dúlla sér í hnífaparaskúffunni og vaskinum á næturna, og taka svo af og til kamikaze stökk úr efri skápunum ofan á eldhúsborðið þegar þær vita að við sjáum til :/ Nú borða ég ekki neitt nema það sé í lokuðum umbúðum og þvæ allan borðbúnað aftur áður en ég nota hann ;( Sem betur fer virðast þær láta herbergin í friði, amk. enn sem komið er.
Í fótboltafréttum er það helst að öll lið sem ég og xiwen horfum á í beinni skíttapa, sérstaklega var það sorglegt þegar við fórum prúðbúnar á fótboltakrá til að fylgjast með hollendingum gegn rússum. Stelpurnar voru klæddar í appelsínugult og við vorum búnar að æfa okkur að hrópa "Hup Holland" og allt, og svo var þetta bara hundleiðinlegur og sorglegur leikur. Mikið af sorgmæddu appelsínugulu fólki í bænum þann daginn...
Jamm, veit ekki hvað ég á að skrifa meira. Læt ykkur vita hvernig húsnæðismálin ganga, og svo mega allir krossa puttana mín vegna því að annar vinur xiwen ætlaði að reyna að koma bráðlega að laga netið. Það myndi amk minnka kostnaðinn sem fylgir því að hanga á kaffihúsum (þarf meira að segja að taka sporvagn til að komast hingað). Svo mega allir sem ég þekki sem skrifa blogg alveg fara að bæta við færslum (þið vitið hverjir þið eruð ;) svo maður fái nú einhverjar fréttir af fólki þegar maður loksins kemst á netið.

Kærar kveðjur frá Gómórru,
Helga bráðum ekki lengur heimilislausa

Thursday, June 19, 2008

Alein í Amsterdam

Jæja, þá er komið að því að ganga í virðulegan hóp bloggara um allan heim. Daða finnst blogg voða plebbalegt (bara eitthvað fólk að nöldra á netinu) en það er ekki hægt að neita því að þetta er mun hentugra en að skrifa öllum fyrir sig.
Nú er maður sem sagt mættur til fyrirheitna landsins, sem verður svo heimili manns næstu 3-4 árin. Enn sem er hefur þetta bara gengið ágætlega fyrir sig, f.u. húsnæðisleitina sem virðist ætla að vera ein stór flækja. Hann Gestur (leiðbeinandinn minn hérna í Amsterdam) sótti mig á flugvöllinn og skutlaði mér á nýja bráðabirgðaheimilið, Louwesweg, sem er fyrir aftan spítalann. Þetta var nokkurn vegin það sem ég hafði ímyndað mér, dúkur á gólfum, gömul skrifstofuhúsgögn, einbreiður beddi og stólseta frá Ikea sem koddi. Jújú, þetta er hreint og allt svoleiðis, og allt til alls nema ofn, þvottavél (og uppþvottavél fyrir snobbaða), og svo hef ég aðgang að sjónvarpi og neti þegar ég gerist svo djörf að banka upp á hjá henni Xien í stærra herberginu. Hún sem sagt var mætt á undan mér og nældi sér í aðalherbergið með öllum lúxúsnum, en þar sem hún er mjög indæl og vingjarnleg þá fyrirgef ég henni. Netkapallinn þarna virkar því miður ekki í mína tölvu (kommon daði, redda málunum ;/ ) þannig að ég fæ bara að nota tölvuna hennar. En auðvitað er það ekki það sama, þannig að ég er voða takmarkað að hanga á netinu þessa dagana. Mikið er samt erfitt að lifa án þess!! Hrikalegt að verða svona háður án þess í raun að fatta það- tölvan virðist hálf tilgangslaus á borðinu mínu þegar hún er ekki nettengd, ekki einu sinni hægt að skoða mbl eða hlusta á X-ið!
Fystu dagarnir í útlöndum eru auðvitað alltaf erfiðir. Þó að allir séu rosalega næs á Sanquin (blóðbankanum) er það bara ekki það sama að vera vingjarnlegur og vinur. Vonandi kynnist ég bráðlega einhverjum betur, það eru amk tvær stelpur á skrifstofunni minni (ég er með skrifborð!!) sem voru duglegar að spjalla við mig (þær sömu og fóru út með mér að borða síðast) og svo er auðvitað hún Xien sambýlingur minn. Sú var reyndar æst í að gera ýmislegt með mér, vildi kíkja í bíó einhvern daginn, versla föt og fara á djammið, helst allt í einu held ég. Hún talar ágætis ensku, reyndar með sterkum kínverskum hreim, en mjög litla hollensku, þó hún hafi búið hér í tvö ár. Mér skilst að hún eigi fullt af vinum, allt kínverjar að ég held, þannig að diskóferðin ætti að vera mjööög áhugaverð. En þrátt fyrir það læðist alltaf að manni einhver einmanakennd- þetta minnir mig óhjákvæmilega á fyrstu dagana í Graz þegar maður þekkti ekki sálu og talaði varla orð í tungumálinu. Mig langar bara að redda húsnæði sem allra allra fyrst, svo að það sé nú hægt að flytja inn íslenskan strák til að kúra hjá (þeas. Daða). Þessi húsnæðisleit er nú bara brandari; í dag skoðaði ég eina íbúð í þorpi sem heitir Heemstede og er ekki lengra frá amsterdam en Haarlem. Því miður eru samgöngur þangað mjög lélegar (lest til Haarlem og svo strætó á klukkutíma fresti til Heemstede) auk þess sem íbúðin sjálf var nú bara þrepinu fyrir ofan snyrtilegan kamar. Eina nytsamlega sem kom út úr þessu öllu saman var það að ég hitti loks stelpuna sem sér um ódýra húsnæðið hjá Haarlem Wonen, og hún hélt að ef ég gæti reddað eintaki af samningnum, þá ættu leigutekjurnar mínar að geta talist sem tekjur (og þal. ætti ég að geta leigt dýrari íbúð). Einnig deildi hún með mér þeim viskumola að til þess að búa í Haarlem án þess að vinna þar, þá þyrfti maður annað hvort að leigja undir 600 evrum eða deila hluta íbúðarinnar (eins og salerni) með einhverjum öðrum. Og þetta fréttir maður núna!!! Mjög týpískt dæmi um upplýsingaflæðið hérna til væntanlegra leigutaka. Þarna voru líka tveir útlendingar (par) sem samsinntu mér algerlega þegar ég viðraði á þessu við stúlkuna sem var að sýna íbúðina, að þetta væri nú alger lönguvitleysa og næstum því ómögulegt að redda sér húsnæði sem útlendingur. En það dugar ekki að gefast upp, ekki ef ég ætla einhvern tíman að flytja úr þessari heimavist/fangelsi á Louwesweg.
Á laugardaginn spila Hollendingar gegn annað hvort svíum eða rússum, og það verður spennandi að upplifa stemminguna þá. Þeir hafa amk mjög gaman af því að sýna stuðning með því að skreyta húsin sín og gluggana með appelsínugulu (þjóðarliturinn) og eru á svaka vinnings-fart á EM. Ein stelpan á Sanquin var að tala um að fólkið ætti að hittast laugardagskvöldið og horfa á leikinn, hún Lusiana frá Ítalíu, sem er hinn útlendingurinn á skrifstofunni. Það verður áhugavert hvað gerist ef ítalir spila gegn hollandi í úrslitunum, hvoru megin hún lendir við línuna ;)
Annars er ég bara voða mikið að hugsa til alla þeirra sem ég þekki og þykir vænt um: Hún Gunnhildur og litla fjölskyldan hennar í Odense sem eru á leiðinni til Íslands, Svansa systir í sama bæ sem er að flytja þessa dagana (sorrí að ég gat ekki hitt þig þegar ég var í köben :( , Steina í London, mamma, pabbi og Jóhanna sem eru á einhverju flakki um evrópu, amma sem er ein eftir á Íslandi og svo náttúrulega Daði- heimilislaus, atvinnulaus og kvenmannslaus, - það gerist ekki mikið verra en það ;) En svona er þetta alltaf í byrjun, svo fer þetta bara upp á við þegar maður kemur sér betur fyrir. Hver veit, kannski endar maður bara sem einhver helv.. Hollendingur? Ástarkveðjur frá höfuðborg Hassins, Helga