Monday, September 8, 2008

Gúrkutíð

Ég hef fengið kvartanir þess efnis að ég sé ekki að blogga nóg þessa dagana. Ástæða þess er einfaldlega sú að líf mitt er mjög óáhugavert þessa dagana. Bara vakna, hjóla í vinnuna, dútla mér á tilraunastofunni, hjóla til baka, kíkja í ræktina og svo drösla mér heim að eta. Um helgar kíkjum við Daði yfirleitt á opna markaðinn í Jordaan, sem er artsí trendí kaffihúsahverfið milli Westerpark (þar sem við búum) og miðbæjarins. Þar er hægt að kaupa grænmeti og ávexti, fisk og kjúkling, kryddpulsur, vín, safa, osta, hunang, brauð, snyrtivörur, kjöt og margt margt fleira. Þar í kring eru fullt af kaffihúsum og börum þar sem fólk sest niður og fær sér brunch og kaffi og slappar af eftir innkaupin. Það er mun ódýrara að kaupa inn þar heldur en í matvörubúðunum, auk þess sem úrvalið er betra og ferskara. Í næstu götu er lífræni markaðurinn, sem er ennþá girninlegri, en því miður of dýr fyrir fátæka stúdenta. Við erum sérstaklega að reyna að spara þessa dagana, þar sem við höfum verið dugleg að eyða í alls kyns stórræði. Fyrir utan rándýra tölvuskjáninn hans daða er þar er helst að nefna nýja fína sófann okkar (Ikea, náttúrulega) sem ég sit í einmitt núna. Nú getum við loks farið með svefnsófann okkar inn í svefnherbergi, en hann er svo lélegur sem sófi að það er varla hægt að sitja í honum þannig. Önnur stórkaup voru líka fjárfesting í (bammbarabamm) helgarferð í tilefni af 10 ára sambandsafmæli okkar Daða í nóvember!! Áfangastaðurinn er algjört hernaðarleyndarmál þar sem þetta er mín gjöf til Daða og hann hefur ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Ég get einungis ljóstrað því upp að með fargjaldi og gistingu í fjórar nætur borgum við rétt rúmlega 500 evrur. Þó að þetta sé vel sloppið setur þetta strik í reikninginn í plön okkar um að kaupa almennilegt rúm svo að hægt sé að bjóða upp á gistingu í svefnsófanum okkar. Mamma var meira að segja að hugsa um að kíkja í heimsókn í október með mæju frænku og jóhönnu (og jafnvel svönsu líka ;) og það væri voðalega gaman að bjóða þeim upp á gistingu. Það má alltaf skella einum eða tveimur í nýja flotta sófann og einum á dýnuna, og í versta falli má fjárfesta í bedda eða dýnu eða fá loftdýnu lánaða. Jæja, þetta verður bara allt að koma í ljós... Við erum alla veganna mjög til í heimsókn ;) Í síðasta mánuði keyptum við eyju í eldhúsið okkar, sem bætti við alveg fullt af skápa- og borðplássi í pínuponsulitla eldhúsið. Okkur vantar enn hillur í eldhúsið, samstæðu í stofuna, teppi á gólfið, alvöru borðstóla (sitjum á klappstólum), internetáskrift, skrifstofustól handa Daða o.s.fl, o.s.fl..... Svo var ég að sjá að espressovélabúðin í næstu götu selur draumavélina mína, á 400-500 evrur, og nú er ég farin að sjá hana fyrir mér í hillingum á nýja borðplássinu mínu- úff hvað það er stundum erfitt að vera námsmaður í útlöndum! Jæja, maður verður hérna í nokkur ár og það er nógur tími fyrir þess konar draumóra. Í millitíðinni fer mest af sparipeningum í rándýra miða heim til íslands um jólin þannig að jólagjafirnar verða væntanlega í hógværari kantinum ;) Ég vil einnig biðja fólk úm að sýna hófsemi í gjafavali handa okkur, þar sem maður verður víst að borga fyrir hvert einasta kíló sem maður tekur með heim í yfirvigt- sem sagt bara hugsa smátt þessi jólin (enda er það hugurinn sem gildir:).
Jæja, þá dettur mér ekkert meira rugl í hug eins og er, endilega skiljið eftir komment á síðunni ef ykkur liggur eitthvað hjarta. Annars bið ég bara vel að heilsa öllum vinum og vandamönnum og ég hlakka til að sjá alla um jólin!

Kv Helga

3 comments:

Anonymous said...

Sakni sakn...
Jóhanna

Steina said...

Mmm... markaðir

Ahh... IKEA

Ekki hafa áhyggjur, jólagjöfin frá mér verður ábyggilega mjög þægileg í flutningum!

Anonymous said...

hæ skvís, verðum að fara að hringjast
Hafðu það nú gott
Knús Svansa