Sunday, November 23, 2008

Myndir!

Ég setti loksins inn myndir með síðasta pósti. Í millitíðinni hefur lítið gerst, nema kannski- jú- það er farið að snjóa!! Ekta jólasnjór liggur yfir öllu takk fyrir- ef þetta verður líka svona á morgun ætla ég sko að taka strætó í vinnuna takk fyrir. Þannig að, mamma og Jóhanna, muna að taka með hlýjar úlpur :) Sjáumst bráðum!!

Thursday, November 13, 2008

Ferðalangarnir miklu

Jæja, nú hef ég sko margt að blogga um. Fyrst af öllu komu foreldrar Daða og systir í heimsókn til okkar fyrir nokkru, og voru hjá okkur frá fimmtudegi til þriðjudags. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt saman, m.a. fórum við stelpurnar saman að versla, við fórum út að borða, fórum öll saman í siglingu um amsterdam og auðvitað kíktum við í söfn. Það er gaman að minnast á að að þar sem hún Anna Guðný vinnur hjá Þjóðminjasafninu vorum við með svona VIP passa inn á söfnin- fengum ókeypis aðgang og fengum meira að segja að fara fram yfir röðina (rennblautum túristahópum til mikillar gremju ;) Því miður fengum við ekkert spes veður, bara einn fallegan dag og nýttum hann sko til hins ýtrasta, kíktum á markað og fengum okkur sushi. Annars vorum við bara duglegust að lalla um og versla og fá okkur gott að borða, enda er það besta leiðin til að kynnast nýjum stöðum. Foreldrarnir gistu í skúrnum okkar og fannst það bara fínt, og litla Anna litla gisti á sófanum (því miður þurftum við að vekja hana þegar við forum á fætur á morgnana, en annars var það víst bara komfí). Við þökkum því bara fallega fyrir heimsóknina og hlökkum til þess að fá mömmu og jóhönnu í mánuðinum!
Svo aðalfréttirnar: ég og Daði héldum upp á 10 ára afmælið okkar með pomp og prakt með því að stinga af til Prag;) Þar sem ferðin var gjöfin mín til Daða, mátti hann ekki vita hvert við vorum að fara fyrr en í flugvélinni, þegar flugmaðurinn kom upp um leyndarmálið. Tékk-inn-ið var reyndar pínu vandræðasamt þar sem Daði þurfti að bregða sér frá skrifborðinu svo hann heyrði ekki nafnið á áfangastaðnum (dömunum fannst það voða fyndið og rómó). Í stuttu máli sagt var borgin yndisleg, hótelið okkar var í göngufjarlægð frá Karlsbrúnni og miðbænum og bara mjög hreint og fínt. Við svoleiðis átum á okkur gat yfir þessa fjóra daga, gúllas, reykt svínakjöt, bjór, kartöflupönnukökur, súrkál etc etc.. Kotkeilarnir hræódýrir, maður gat fengið flottan mojito eða daquiri fyrir fjórar evrur sem er ca helmingur af því sem maður borgar í amsterdam. Við kíktum líka á kommúnistasafnið og fórum í kommúnista-göngutúr með leiðsögumanni og lærðum fullt um flauelsbyltinguna, seinni heimsstyrjöldina og kommúnismann. Mér til mikillar gleði var Starbucks út um allt í borginni, og líka tékkneska útgáfan af þeim sem hét coffee heaven og var bara nákvæmlega eins. Einn daginn skelltum við Daði okkur í verslunarleiðangur og keyptum okkur (loksins) nýja skó, daði fékk flotta skó frá ecco og ég fékk ofursvöl brún leðurstígvel sem ég get troðið buxunum mínum ofan í. Það var fyndið að sjá hvað það var rosalega mismunandi verðlag milli bæjarhluta, maður gat borgað allt fra 28 kórónur fyrir bjór (ca evru) upp í 110 kórónur (yfir fjórar evrur) ef maður fékk sér sæti utan dyra á gamla torginu fyrir framan stóru gömlu klukkuna. Klukkan sú var reyndar mjög flott, sýndi allt sem gat hugsast sér (nema kannski hvað klukkan var ;) og á hverjum klukkutíma fór af stað mikið klukkuspil með gargandi krákum, dinglandi beinagrindum og fullt af dýrlingum sem snérust í hringi. Það var reyndar sama hvort maður var a skítugum bar eða trendí lounge, alltaf var þjónustufólkið jafn þumbaralegt og pirrað. Í besta falli var það kurteist og í versta falli allt að því dónalegt. Það var bara á starbucks sem að afgreiðslufólkið var brosandi og hresst, kannski einhverjar leifar frá kommúnistatímanum þegar allir voru hræddir við alla. Borgin sjálf er ofurfalleg, minnti okkur reyndar ótrúlega á Graz eða Salzburg, enda var þetta allt saman sama keisaradæmið hérna í gamla daga. Á hverju horni mátti sjá nær alla stíla sem hægt var að hugsa sér- gotneskan, rómverskan, art noveou, art deco, fúnkís stíl, módernsimi og svo af og til hræðilegar gráar massívar kommúnismamartraðir. Í úthverfunum gat maður séð blokkarhverfi dauðans, en við vorum ekkert að þvælast þangað. Einn daginn löbbuðum við upp að hæðinni við hliðina á kastalanum, en þar var risastór taktmælir sem búið var að reisa þannig að hann var í beinni sjónlínu við aðaltorgið. Í safninu lærðum við svo að þarna stóð ein stærsta stytta sem nokkurn tíman hefur verið byggð í evrópu og var hún af stalín ásamt rússneskum og tékkneskum fyrirmyndarþegnum. Það tók mörg ár og margar milljónir evra að byggja hana, og svo loks þegar það var búið var gaurinn dauður! Eftirmanni hans fannst að um of mikla persónudýrkun væri að ræða svo styttan var sprengd í loft upp, og stallurinn skilinn eftir á mest áberandi staðsetningu í Prag. Einhvers staðar heyrðum við reyndar að risastytta af michael jackson hefði verið sett þarna upp í tengslum við HisStory túrinn hans um evrópu, en á endanum var taktmælirinn settur upp til að minna á örar breytingar í landinu á síðustu öld. Talandi um breytingar- ekki gat ég séð á neinu að um kommúnistaríki væri að ræða, með mcDonalds og mango og alls kyns verslunum á hveru götuhorni. Okkur fannst sem sagt yndislegt að fara í smá haustfrí og við mælum hjartanlega með borginni í rómantískar helgarferðir ;) Ég set inn myndir við fyrsta tækifæri... (löt núna ;)

Kærar kveðjur frá okkur báðum til ykkar á skuldaeyjunni miklu,
Helga og Daði