Thursday, June 19, 2008

Alein í Amsterdam

Jæja, þá er komið að því að ganga í virðulegan hóp bloggara um allan heim. Daða finnst blogg voða plebbalegt (bara eitthvað fólk að nöldra á netinu) en það er ekki hægt að neita því að þetta er mun hentugra en að skrifa öllum fyrir sig.
Nú er maður sem sagt mættur til fyrirheitna landsins, sem verður svo heimili manns næstu 3-4 árin. Enn sem er hefur þetta bara gengið ágætlega fyrir sig, f.u. húsnæðisleitina sem virðist ætla að vera ein stór flækja. Hann Gestur (leiðbeinandinn minn hérna í Amsterdam) sótti mig á flugvöllinn og skutlaði mér á nýja bráðabirgðaheimilið, Louwesweg, sem er fyrir aftan spítalann. Þetta var nokkurn vegin það sem ég hafði ímyndað mér, dúkur á gólfum, gömul skrifstofuhúsgögn, einbreiður beddi og stólseta frá Ikea sem koddi. Jújú, þetta er hreint og allt svoleiðis, og allt til alls nema ofn, þvottavél (og uppþvottavél fyrir snobbaða), og svo hef ég aðgang að sjónvarpi og neti þegar ég gerist svo djörf að banka upp á hjá henni Xien í stærra herberginu. Hún sem sagt var mætt á undan mér og nældi sér í aðalherbergið með öllum lúxúsnum, en þar sem hún er mjög indæl og vingjarnleg þá fyrirgef ég henni. Netkapallinn þarna virkar því miður ekki í mína tölvu (kommon daði, redda málunum ;/ ) þannig að ég fæ bara að nota tölvuna hennar. En auðvitað er það ekki það sama, þannig að ég er voða takmarkað að hanga á netinu þessa dagana. Mikið er samt erfitt að lifa án þess!! Hrikalegt að verða svona háður án þess í raun að fatta það- tölvan virðist hálf tilgangslaus á borðinu mínu þegar hún er ekki nettengd, ekki einu sinni hægt að skoða mbl eða hlusta á X-ið!
Fystu dagarnir í útlöndum eru auðvitað alltaf erfiðir. Þó að allir séu rosalega næs á Sanquin (blóðbankanum) er það bara ekki það sama að vera vingjarnlegur og vinur. Vonandi kynnist ég bráðlega einhverjum betur, það eru amk tvær stelpur á skrifstofunni minni (ég er með skrifborð!!) sem voru duglegar að spjalla við mig (þær sömu og fóru út með mér að borða síðast) og svo er auðvitað hún Xien sambýlingur minn. Sú var reyndar æst í að gera ýmislegt með mér, vildi kíkja í bíó einhvern daginn, versla föt og fara á djammið, helst allt í einu held ég. Hún talar ágætis ensku, reyndar með sterkum kínverskum hreim, en mjög litla hollensku, þó hún hafi búið hér í tvö ár. Mér skilst að hún eigi fullt af vinum, allt kínverjar að ég held, þannig að diskóferðin ætti að vera mjööög áhugaverð. En þrátt fyrir það læðist alltaf að manni einhver einmanakennd- þetta minnir mig óhjákvæmilega á fyrstu dagana í Graz þegar maður þekkti ekki sálu og talaði varla orð í tungumálinu. Mig langar bara að redda húsnæði sem allra allra fyrst, svo að það sé nú hægt að flytja inn íslenskan strák til að kúra hjá (þeas. Daða). Þessi húsnæðisleit er nú bara brandari; í dag skoðaði ég eina íbúð í þorpi sem heitir Heemstede og er ekki lengra frá amsterdam en Haarlem. Því miður eru samgöngur þangað mjög lélegar (lest til Haarlem og svo strætó á klukkutíma fresti til Heemstede) auk þess sem íbúðin sjálf var nú bara þrepinu fyrir ofan snyrtilegan kamar. Eina nytsamlega sem kom út úr þessu öllu saman var það að ég hitti loks stelpuna sem sér um ódýra húsnæðið hjá Haarlem Wonen, og hún hélt að ef ég gæti reddað eintaki af samningnum, þá ættu leigutekjurnar mínar að geta talist sem tekjur (og þal. ætti ég að geta leigt dýrari íbúð). Einnig deildi hún með mér þeim viskumola að til þess að búa í Haarlem án þess að vinna þar, þá þyrfti maður annað hvort að leigja undir 600 evrum eða deila hluta íbúðarinnar (eins og salerni) með einhverjum öðrum. Og þetta fréttir maður núna!!! Mjög týpískt dæmi um upplýsingaflæðið hérna til væntanlegra leigutaka. Þarna voru líka tveir útlendingar (par) sem samsinntu mér algerlega þegar ég viðraði á þessu við stúlkuna sem var að sýna íbúðina, að þetta væri nú alger lönguvitleysa og næstum því ómögulegt að redda sér húsnæði sem útlendingur. En það dugar ekki að gefast upp, ekki ef ég ætla einhvern tíman að flytja úr þessari heimavist/fangelsi á Louwesweg.
Á laugardaginn spila Hollendingar gegn annað hvort svíum eða rússum, og það verður spennandi að upplifa stemminguna þá. Þeir hafa amk mjög gaman af því að sýna stuðning með því að skreyta húsin sín og gluggana með appelsínugulu (þjóðarliturinn) og eru á svaka vinnings-fart á EM. Ein stelpan á Sanquin var að tala um að fólkið ætti að hittast laugardagskvöldið og horfa á leikinn, hún Lusiana frá Ítalíu, sem er hinn útlendingurinn á skrifstofunni. Það verður áhugavert hvað gerist ef ítalir spila gegn hollandi í úrslitunum, hvoru megin hún lendir við línuna ;)
Annars er ég bara voða mikið að hugsa til alla þeirra sem ég þekki og þykir vænt um: Hún Gunnhildur og litla fjölskyldan hennar í Odense sem eru á leiðinni til Íslands, Svansa systir í sama bæ sem er að flytja þessa dagana (sorrí að ég gat ekki hitt þig þegar ég var í köben :( , Steina í London, mamma, pabbi og Jóhanna sem eru á einhverju flakki um evrópu, amma sem er ein eftir á Íslandi og svo náttúrulega Daði- heimilislaus, atvinnulaus og kvenmannslaus, - það gerist ekki mikið verra en það ;) En svona er þetta alltaf í byrjun, svo fer þetta bara upp á við þegar maður kemur sér betur fyrir. Hver veit, kannski endar maður bara sem einhver helv.. Hollendingur? Ástarkveðjur frá höfuðborg Hassins, Helga

2 comments:

Steina said...

Jei, ég er fyrst til að kommenta!

Þetta verður sko allt í lagi. Ég er viss um að þið eigið eftir að finna fínt húsnæði - bara finna út gloppurnar í reglunum. Við heyrumst kannski við tækifæri - geturðu ekki internetað á kaffihúsi einhvers staðar (þá meina ég 'café', ekki 'coffee shop'!)

Jóhanna María said...

Hæ:D Æði að heyra frá þér... Ertu búin að finna einhvern stað sem selur almennilegt kaffi??? Ég er búin að eyða öllum peningunum mínum og er því að bíða eftir laununum mínum sem koma á þriðjudaginn...
O eins og sannir íslendingar með víkingajarta segja, þetta reddast:D:D:D