Tuesday, October 21, 2008

Efteling

Bara stutt núna, enda er ég í vinnunni og á að vera gera annað :) Við fórum í skemmtigarð um helgina sem heitir Efteling og er svona ævintýragarður. Hugsaði sko mikið til svönsu og familíu, enda voru þarna heilu töfalöndin full af blómálfum, tröllum, austurlenskum prinsessum og ég veit ekki hvað. Rakel og Kara hefðu flippað út! Svo voru líka rússíbanar og þess konar herlegheit fyrir fullorðna, alltaf gaman af því. Þetta var mjög stór garður og alveg rosalega fallegur, en því miður voru veitingarnar týpískt hollenskar- bara franskar og borgarar og vont bakkelsi. Næst kem ég með nesti eins og allir hinir. Meira að segja kaffið var sami ljóti automatinn og ég neita að drekka úr (ókeypis!) í vinnunni, iss... En þetta var rosalega skemmtilegur dagur, ég set inn fleiri myndir þegar ég kem heim.
Begga var að segja mér að það hafi snjóað heima! Hér er bara rigning, dag eftir dag... Vonandi muna foreldrar daða að koma með regnhlífar og pollagalla ;)

Kv Helga

Friday, October 17, 2008

Hótel Helga

Nú erum við loks búin að kaupa rúm! Alveg æðislega flott Ikea rúm (Malm í eik, fyrir þá sem þekkja til). Þetta þýðir að nú er laus eitt stykku svefnsófi fyrir þreytta ferðalanga sem vilja koma í pílagrímsferð til Amsterdam. Svo tók Daði sig til um daginn og pússaði upp gólfið inni í garðhýsinu okkar og málaði loft og veggi. Þetta er orðið bara voða kósí, við hentum þangað inn sófanum og tölvuborðinu hans Daða þannig að þetta er orðið nýja uppáhaldsherbergið hans ;) Ég þarf að venjast því aftur að hafa hann ekki alveg yfir mér allan daginn í tölvunni að horfa á south park og svona, en það var satt að segja mjög truflandi fyrir heimalærdóminn. Samt sakna ég þess pínulítið að hafa hann hjá mér, en auðvitað get ég alltaf heimsótt hann út í kofa (nema ef það er rigning, þá nenni ég því ekki). Fyrir þá sem muna eftir hryllingssögum í sumar um ógéðslegar pöddur úti í garði, þá get ég tilkynnt það að við erum búin að taka garðinn í gegn og við sáum ekkert meira af þessum pöddum (bara eðlilegt magn af kóngulóm og svona). Þetta er bara alltaf að verða flottara hjá okkur!
Annars er það helst í fréttum að við fórum á tónleika um daginn til að sjá hana Emiliönu Torrini. Hún var að spila á Paradiso eina helgina og auðvitað gátu stoltir Íslendingar ekki sleppt tækifærinu til að sjá hana. Daði fór nú meira nauðugur viljugur með mér, en skemmti sér svo rosalega vel, alveg óvænt. Við hittum auðvitað fullt af íslendingum, og spjölluðum heilmikið við íslenskar mæðgur sem hafa búið í Amsterdam í mörg ár- alltaf hægt að "bonda" yfir þjóðarhörmungunu;) Hún Emiliana er auðvitað með alveg ótrúlega rödd og mjög skemmtilega framkomu, reyndar allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Hún virkar alltaf svona alvarleg og fínleg, en svo var hún með svoleiðis groddahúmor, algjör rugludallur og bara helv.. skemmtileg á sviði. Hún mætti í appelsínum kjól (litur hollensku konungsfjölskyldunnar), en sko bara út af því að hún tapaði veðmáli- Íslendingar töpuðu nefnilega fyrir Hollendingum í fótbolta kvöldið áður (mikill bömmer, ég var að horfa á með nokkrum vinum). Reyndar vakti það mikla athygli að einn stuðningsmaður íslenska liðsins gerði sér lítið fyrir og vippaði upp skilti eftir fyrsta markið gegn íslendingum sem á stóð..."We've got your money!". Mjööög umdeildur húmor, svona í ljósi þess að fullt af fólki (og stofnunum) gætu tapað fullt af peningum á þessu blessaða Icesave. Fólk hló víst í stúkunni að þessu, en verðir voru fljótir að biðja gæjann um að taka niður skiltið (það var bara upp í þrjár mínútur). Það kom ekki í veg fyrir það að myndir af þessum "atburð" voru í öllum blöðum, og myndir af gaurnum líka. Hann gengur líklega um með húfu í dag.....
Jæja, þarf að fara að drífa mig. Það er "opinn dagur" á blóðbankanum í dag og ég bauð mig fram við að aðstoða (við fáum 100 evrur fyrir;). Á morgun ætla ég svo með nokkrum krökkum í svona skemmtigarð sem er í ca 2ja tíma fjarlægð frá Amsterdam, svona Disney garður Hollendinga. Þetta verður því ekki afslappandi helgi fyrir fimmaur! Í næstu viku koma svo foreldrar Daða og systir og okkur hlakkar voða til að fá heimsókn, erum strax að byrja að plana hvað við ætlum að gera og hvar við viljum borða og svona. Mamma hans daða á svo ókeypis passa í öll söfnin (enda vinnur hún í þjóðó) svo við getum loksins séð eitthvað af þessum söfnum í borginni (erum mjög lélegir túristar...).
Ég bið voða vel að heilsa öllum, vonandi líður bara öllum vel! Og endilega skrifa comment ef þið lesið, alltaf gaman að frétta eitthvað ;)

Tuesday, October 7, 2008

Síðasti af eyjunni slökkvi ljósin

Það er voða skrýtið að fylgjast með vitleysunni heima hérna í útlöndum, ég verð nú að segja að við erum voða glöð að vera erlendis og löngu búin að skipta peningunum okkar í evrur... Það er reyndar lúmskt gaman að umreikna tekjurnar okkar í krónur þessa dagana, þegar krónan var sem lægst þá vorum við daði með yfir hálfa milljón í tekjur eftir skatta! Manni langar bara til að fara út að versla;) Hmm, bíddu, við erum einmitt búin að því! Við fórum sem sagt í Ikea í gærkvöldi og splæsum í rúm með náttborði og öllu, og nú bíð ég heima spennt eftir Ikea-bílnum svo ég geti nú bráðum farið í vinnuna. Þá er sem sagt búið að redda gistingu handa væntanlegum gestum, þar sem nú eigum við auka svefnsófa :) Ég kíkti líka í bæinn að versla á laugardaginn með henni Anisku, ég keypti nefnilega glamour tískublað um daginn og í því reyndist vera afsláttarmiði upp á 20% afslátt í fullt af búðum á laugardaginn 4 okt. Við drifum okkur því, ásamt að því virðist nær öllum konum í amsterdam milli 15 og 45 því það var alveg smekkpakkað takk fyrir (svona máta fötin á ganginum stemming). Ég gerði bara góð kaup, keypti mér tvo boli og peysukjól í mangó (mangó er æðislegt núna!), tvö sjöl og smá snyrtivörur og allt með 20% afslætti. Stórgræddi sem sagt á þessu blaði, hehe. Það var bara rosalega gaman að kíkja svona í verslunarferð, enda hef ég hingað til bara staðið í þessu ein eða með Daða (ekki sérstaklega gaman) og það er bara miklu skemmtilegra að gera þetta með vinkonu sem maður getur slúðrað með og fengið sér kaffi eftirá og svoleiðis :)
Annars er það helst að frétta hérna frá Hollandi að haustið er komið í allri sinni dýrð, sem þýðir að það rignir nær hvern einasta dag, og þvílíka monsún rigningu hef ég varla séð. Á hverjum degi þurfum við Daði að drösla rennblautu hjólunum okkar út úr garðinum í gegnum íbúðina, klæða okkur upp í regngallann (pollabuxur og plastponsjó fyrir mig takk fyrir) og leggja af stað út í vottíðina og myrkrið. Ég þarf að hjóla í 30 mín í vinnuna (tekur samt lengri tíma í rok og rigningu) og þegar ég er mætt er hárið á mér út um allt, allt meikið runnið af og skórnir mínir rennblautir- þyrfti í alvöru að fjárfesta í gamaldags stígvélum. Maður gæti í raun alveg sleppt því að hafa sig til á morgnana, bara rúllað úr rúminu og drifið sig í vinnuna grútmyglaður og ómálaður. Reyndar hékk það þurrt í dag og í gær, svo það er enn von...
Hollensku tímarnir ganga ágætlega- ég mæti í háskólann einu sinni í viku eftir vinnu og er þar í þrjá og hálfan tíma, maður er sko ekki upp á sitt besta á þeim tíma get ég sagt ykkur. Þetta síast svona hægt og rólega inn, ég verð bara að reyna að vera duglegri að tala og vinna heimavinnuna. Við hittum einn úr kúrsinum um helgina, breskur tölvugaur sem heitir Will og fílar Makka meira en PC (svo hann og daði gátu haft miklar kappræður um það efni, enda er daði mikill anti-makki;). Reyndar átti þetta að vera hópferð á kaffihúsið á laugardaginn, en hinir úr hópnum mínum sem ætluðu að mæta afbókuðu sig eitt og eitt þar til að við vorum bara þrjú eftir (grenjandi rigningin hafði kannski einhver áhrif á mætingu). En það var bara fínt, enda kom okkur svona ljómandi vel saman og við kjöftuðum í langan tíma yfir nokkrum bjórum. Vonandi bara að maður kynnist betur þessum krökkum á námskeiðinu, alltaf gaman að eignast nýja vini. Jæja, þá dettur mér ekkert meira í hug eins og vel, ég hugsa bara fallega til ykkar á sökkandi þjóðarskútunni ;0
Endilega kommentið ef þið lesið þetta, hvað er í gangi hjá ykkur þarna hinum megin?
Kærar kveðjur, Helga pelga