Monday, January 12, 2009

Gleðilegt nýtt ár!

Nú er komið að fyrsta bloggi ársins! Því miður eru engar myndir þar sem við erum nokkuð viss um það að okkur hafi tekist að gleyma myndavélastandinum okkar heima hjá mömmu, svo við getum hvorki hlaðið myndavélina né tekið myndirnar af henni. En við reddum þessu einhvern vegin... Það er soldið skrýtið að vera komin til baka eftir hátíðirnar. Maður var rétt farinn að venjast því að hafa alla fjölskylduna hjá sér og vini, og rúnta um allt á prívat bíl o.s.frv. Svo er maður bara kominn aftur í litlu, tómu íbúðina í amsterdam og á að fara að vinna í ofanálag! Hér er búið að vera skítakuldi, frost upp í hvern dag og meira að segja tveggja stafa tölur á næturna. Hollendingarnir taka því hins vegar fagnandi, enda miklir skautakappar upp til hópa. Öll vötn og tjarnir eru nú þakin brjáluðum Niðurlendingum sem skauta fram og til baka af miklum móð, og ég myndi sko slást í hópinn ef ég ætti skauta. En ég læt mér nægja að blása reyk og skjálfa á meðan ég hjóla í vinnuna í skítakulda dag eftir dag. Helgin síðasta var mjög kósí hjá okkur Daða, við slöppuðum bara af, þrifum aðeins (ekki vanþörf á því), versluðum afmælisgjöf handa vini okkar sem á afmæli næstu helgi og kíktum svo í mat til Anisku vinkonu okkar á sunnudaginn. Hún eldaði handa okkur dýrindis indverskan mat, en ég naut hans því miður aðeins í stutta stund. Mér var það nefnilega á að gleypa heilan suðuramerískan gulan chilli, sem hún hafði laumað ofan í kartöfluréttinn til að bragðbæta, og var meira að segja búin að vara okkur við. Ég var búin að tyggja hann í mauk áður en ég fattaði hvað ég var með í munninum, og mér leið eins og ég hefði drukkið sýru! Einum líter af mjólk og stórum disk af hrísgrjónum síðar hafði bruninn dofnað aðeins, en ég hafði því miður takmarkaða matarlyst eftir þetta. Mjög týpískt fyrir undirritaða... En það var samt indælt að kíkja í heimsókn, og við spjölluðum öll saman fram undir kvöld þar til klukkan var orðin allt of margt.
Annars er það helst í fréttum að Daða og mig er farið að langa til að flikka aðeins upp á íbúðina okkar, sem er ennþá vægast sagt spartversk. Fyrst á listanum er að redda ramma undir myndirnar okkar (ein sem jóhanna málaði handa okkur og svo sú sem við keyptum í Prag) og svo vantar okkur ennþá fatastand, kommóðu, skenk og innréttingu undir sjónvarpið og allt draslið okkar. Planið er að kíkja í mekka námsmannsins, IKEA, í vikunni og athuga hvort þar sé ekki eitthvað spennandi á útsölu. Eftir að hafa verið heima yfir jólin, þar sem allt er svo heimilislegt og fallega skreytt, langar okkur nefnilega soldið að gera heimilið okkar aðeins hlýlegra (daða er reyndar nokk sama, en honum finnst leiðinlegt að hlusta á mig nöldra ;).
Annars viljum við bara þakka fyrir okkur, við höfðum voða gaman af því að kíkja aðeins heim og smjatta á hangikjöti og hambóhrygg og daimís, og við hlökkum mikið til að geta kíkt aftur í heimsókn. Reyndar var ég að sjá að maður getur fengið ferð til London tiltölulega billegt, og pundið er veikt núna gagnavart evrunni- verður maður ekki eiginlega að kíkja? Annað væri eiginlega bara peningasóun! Ég á líka engin föt!!
Jæja, hætt að blaðra í bili. Ég skal reyna að grafa upp eitthvað tengi fyrir myndavélina svo við getum tæmt myndirnar af henni, en mamma mín; ef þú finnur hleðslutækið okkar, má nokkuð plata þig til að senda okkur það svo við getum nú tekið einhverjar myndir á nýja árinu?

Hjartans kveðjur frá Amsterdam,
Helga og Daði

3 comments:

Steina said...

Glæsilegar myndir hjá þér. Þér er alveg guðvelkomið að koma til London. Það eru enn útsölurestar í búðunum en nýja dótið er að koma inn. Þetta verður alveg hræbillegt fyrir þig!

Anonymous said...

Ég styð fatakaup heilshugar:D Þú verður bara að blogga um ferðina og sýna myndir þar sem ég, fátæki íslenski námsmaðurinn mun mjög líklega ekki hafa efni á fatakaupum á næstunni...
Kv. Jóhanna

Anonymous said...

Flottar myndir :O)Það er alltaf gaman að fá fréttir af ykkur. Íslandsferðin var allt of fljót að líða og við sáum ekki eins mikið af ykkur eins og við vildum.
Knús Svansa