Aðeins að sinna tilkynningarskyldunni. Erum sem sagt komin til baka frá Þýskalandi, þar sem við vorum í brúðkaupi og ráðstefnu. Lestarferðin reyndist aðeins meira mál en við gerðum ráð fyrir, enda eyddum við nær þremur dögum samtals í lestir. Heimferðin var lang þægilegust, enda bein leið til Amsterdam, á meðan við þurftum að skipta oft á dag á hinum ferðunum. Brúðkaupið hjá Sabine var gullfallegt, haldið í svaka slossi, maturinn eins og á fimm stjörnu veitingastað og kjóllinn eins og klipptur út úr tímabils-kvikmynd, slæða og allt. Við gistum hjá foreldrum hennar við gott yfirlæti og gátum æft þýskuna okkar fullt. Ég notaði hana reyndar lítið sem ekkert í Berlín, enda þóttust lestarverðir og þjónar á veitingastöðum ekkert skilja mig eða Daða. Þingið var eins og búast mátti við, ýmislegt áhugavert, annað ekki, og mjög lýjandi (8-6 alla daga takk fyrir). Daði mátti hafa ofan fyrir sjálfum sér á meðan, ég gat nú reyndar aðeins stolist frá einn daginn og kíkt með honum á Brandenburgarhliðið og Reichstag og þetta helsta. Eitt kvöldið áttum við líka ein saman, fórum og fengum okkur fullt af sushi og kokteila, bara mjög billegt miðað við amsterdam enda Berlín algjör nemendaborg, og þær iðulega ódýrari en aðrar. Hótelið okkar var mjög flott bara, kannski ekki mikill lúxus en það leit rosalega vel út, svona hönnunarhótel fyrir fólk á budgeti. Morgunmaturinn var svakalega flottur, allt milli himins og jarðar og meira að segja eftirréttir líka. Kaffið reyndar vont, en ég bætti það upp með reglulegum ferðum á starbucks þar sem ég fékk mér frappuccino light eins og endranær. Ég held reyndar að Daða hafi ekkert allt of vel litist á borgina, enda er hún ekki jafn myndræn og sjarmerandi og amsterdam, en ég vil nú samt halda því fram að hann hafi ekki verið að skoða réttu hlutina. Flestir sem þekkja til segja að Berlin sé með skemmtilegri borgum að heimsækja, og þá sérstaklega til að kíkja á söfn, versla og fara út á lífið, og auðvitað gerði Daði ekkert að þessu ofantöldu. Á mánudaginn var hjá mér árleg óvissuferð í vinnunni, og var ferðinni heitið ma. á risastórt virki skammt fyrir utan amsterdam sem heitir Naarden. Þetta er heljarinnar mannvirki, tvöfaldur fimmhyrningslaga skurður með landskika á milli, og svo er innst inni manngerð eyja með fimm varnarvirkjum á hornunum og þar að auki minni hornlaga eyjar milli virkjanna. Þetta var allt lagt úr steinum með grasi ofan á, og ofan frá virkar þetta eins og einhver listrænn skúlptúr á landslaginu. Í austurríki voru þeir með kastala og virki á hverjum fjallstindi, á meðan í flötu Hollandinu nota þeir auðvitað vatn til að verja sig. Svo var skotið af fallbyssum fyrir okkur (aumingja daði að missa af því) og eftir á var etið og djúsað frameftir. Í dag hlakkar mig til að fara heim til að setja upp gardínurnar sem við keyptum loksins, og á laugardaginn kemur Þór Fannar að heimsækja okkur. Svo ætla strákarnir að kíkja til Sverige á hann Garðar fornvin Daða, og þá verða örugglega framin ýmis konar strákapör, á meðan ég er grasekkja heima. En ég borga sko fyrir mig, því að 9.okt sting ég af til Danmerkur til að hanga með Svönsu og Halla í bústað í viku!! Gaman gaman, að slappa af saman ;) Ég vona bara að veðrið verði gott þessa helgina, því mig langar að kíkja í búðir og kannski kaupa hillur eða eitthvað fyrir íbúðina og gera hana ennþá flottari en hún er nú þegar. Verð svo að nota grasekkjutímann til að vera dugleg í ræktinni, enda lítið gaman að hanga einn heima þegar maður á ekki einu sinni sjónvarp.
Endilega látið heyra í ykkur ef þið lesið þetta, set bráðlega inn myndir af brúðkaupinu og kannski óvissuferðinni (hlaðið niður frá öðrum, enda hef ég ekki myndavél sjálf lengur- takk kærlega fyrir það litli myndavélaslátrari; Þú veist hver þú ert....)
Kærar kveðjur, Helga og Daði
Thursday, September 24, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Hæ hæ, ég hlakka til að fá þig í heimsókn:O).....sjónvarpsleysi puha, við eigum eitt 46 tomma sem við getum legið yfir í heila viku, ef við viljum ;O)
Annars bíð ég bara eftir að fara í kaffihúsa og fatabúðaferðir með litlu systur ;O)ég er algjörlega fatalaus. Ætla svo að þjálfa Halla í að vera tilbúinn með matinn þegar við komum heim ;O)
knús Svansa
Líst alveg rosalega vel á það! Geturðu ekki þjálfað hann með svona raf-hálsbandi, getur gefið honum sjokk þegar hann er seinn með matinn ;)
Kv Helga
Jah, "beats me" hver þessi myndavélaslátrari gæti nú verið... En hann hefur nú allavega gefið ykkur ærna ástæðu til þess að kaupa nú nýja myndavél fyrir vikið... Einhverja góða, sem deyr ekki við snertingu:D
Ég vona að þið skemmtið ykkur nú á kaffihúsunum í Odense:D Ég hlakka til að sjá ykkur hér heima á klakanum:D
Kv. Jóhanna myndavélanostrari
Post a Comment