Monday, July 28, 2008

Jungle boogie

úff, hvað það er viðbjóðslega, hrikalega, ógéðslega rakt hérna! Örugglega 70 % raki, maður verður blautur af því bara að labba um án þess að svitna. Ég byrja alltaf hjólaferðarnar á morgnana í jakka (ef það skyldi rigna) og léttri peysu (því það er svo mikil loftræsting í vinnunni) en enda alltaf hálfnakin þegar áfangastað er náð. Rúmið er rakt á kvöldin þegar við leggjumst í það og andlitið á manni alltaf einhvern vegin feitt vegna rakans (þess vegna er ég eins og 15 ára unglingur þessa dagana). Svo ekki sé minnst á moskítuflugurnar sem gæða sér á manni á næturna, en ég er komin með amk. 7 bit sem ég man eftir, og svo heldur kláðinn fyrir manni vöku nótt eftir nótt. Við horfðum á survival-þátt um daginn (þar sem brjálaður breti lætur kasta sér út í fjandsamlegustu umhverfi jarðarinnar og reynir að lifa þar af með ekkert nema vasaklút og bréfaklemmu) og gaurinn var að flækjast um regnskóga indónesíu og ég held bara að við daði höfum fundið fyrir mikilli samkennd með honum. Þegar hann sýndi áhorfendum skordýrabitin sín, rennblaut fötin og mauksoðnar tærnar eftir daginn kinkuðum við bæði kolli og hugsuðum með okkur "oooh, hvað ég skil þig vel, við erum sko á sömu blaðsíðu".
Jamm, útlandsdraumurinn er ekki jafn sætur og hann var heima á fróninu, mig langar í ferska íslenska loftið og góða veðrið sem ég les um í fréttablaðinu! Ég hefði reyndar líka gert mér grein fyrir blíðviðrinu þó ég hefði ekki aðgang að blaðinu, þar sem það hefur ekki sála verið á netinu síðan löngu fyrir helgi (og ekki heldur tölvunördarnir sem daði þekkir). Bara eins og ísland eins og það leggur sig sé orðið sambandslaust, en öllum er sama þar sem þeir liggja allir á bakkanum í Laugardagslaug eða úti í garði og drekka bjór og borða ís. Hvers á ég að gjalda!! Þetta er allt saman farið að leiða af sér vísir af heimþrá, ég er farin að hugsa óvenjulega mikið um familíuna heima, vini mína þar, og svo nottlega stóru systir í danmörku (sem virðist nær og nær á kortinu í hvert skipti sem ég lít á það). En þar sem Daði er enn í atvinnuleit, og flugmiðar í sögulegu hámarki ætlum við að halda í okkur fyrst um sinn. Líklegra að maður splæsi í bílaleigubíl og bara keyri þetta, þar sem flugmiðar fram og til baka eru ca 40-60 þús kall á haus á meðan bíl+bensín bara getur ekki verið svona dýrt. Ég kann ekki einu sinni að leita að lestarferð þarna á milli þar sem þetta er á milli landa og ekki eru til neinar beinar ferðir á milli odense og amsterdam. Ég held að heimþráin myndi líka dofna ef við hefðum það huggulegra heima við, en enn eigum við engan sófa eða samstæðu undir sjónvarpið í stofu+ allt dótið okkar er enn í flutningi með samskip. Ég er viss um að allir sem þetta lesa eru að njóta sumarsins meira en við....

4 comments:

svooona said...

Já bara að drífa sig til stóru systur og hafa það huggulegt í nokkra daga :O) kíktu á hi netfangið þitt, ég sendi þér verð á nokkrum bílaleigubílum.
Knús Svansa

Unknown said...

Það er ekkert mál að taka lest á milli landa. Ég hef oft farið frá Danmörku til Þýskalands og til Austurríkis með lest. Það er reyndar ekkert sérstaklega ódýrt að ferðast með lest en þó ódýrara en að fljúga.

Kíktu bara á www.db.de og www.dsb.dk og þá ættirðu að geta púslað saman einni ferð til Odense.

Mér finnst það reyndar algjört svindl ef þú ferð loksins til Odense ákkúrat þegar ég er nýflutt þaðan :-(

Anonymous said...

Hæ hæ skvís
það er sem sagt heitt og sveitt þarna hjá þér líka, nema mér heyrist öllu verra hjá þér í rakanum (ég var aðallega ekki sátt við að vera að vinna í hitanum!)
Gaman að heyra af þér hérna í gegnum síðuna, greinilega stuð í Amsterdam :) Og til hamingju með íbúðina.
ég var að fá mér Skype um daginn til að geta heyrt í systu í Mexíkó, kanski maður heyri í þér einhverntíman ef við erum báðar online.

Kveðja úr sumrinu

Steina said...

Bíddu sko bara þangað til í lok september/október þegar það verður enn fínt veður í Amsterdam en spáin fyrir Reykjavík er 5°C, rigning og rok dögum saman. Þá verðurðu ekki með heimþrá. Þangað til mæli ég með almennu djammi og djúsi og kannski að reyna að hafa það huggulegt heima fyrir inn á milli...