Sunday, July 13, 2008

Síkjakafarinn

Hæhæ aftur. Jæja, hvað er helst í fréttum? Jú, maður er ekki lengur einhleypingur þar sem hann Daði er mættur á svæðið! Jei ;) Auðvitað gekk þetta ekki snuðrulaust fyrir sig, auminginn lenti í því að þegar hann var kominn til Eindhoven uppgötvaði hann að síminn hans virkaði ekki í útlöndum. Til að toppa allt saman, þá virkaði hvorugt kortið hans í miðasjálfsölunum, en hann þurfti að kaupa lestarmiða til Amsterdam þar sem ég ætlaði að taka á móti honum. Hvorki símasjálfsalarnir né miðasjálfsalarnir vildu kannast við evrurnar hans, og þar sem þetta var að kvöldi til, var enginn við til að selja honum miða á annan máta... Nú voru góð ráð dýr! En sem betur fer gat hann reitt sig á góðvild ókunnugra, þar sem hann rakst á indælt hollenskt par á flugvellinum sem gat keypt fyrir hann lestarmiða og svo leyfði leigubílastjórinn honum að nota símann sinn til að hringja í mig. Ég var farin að undrast um kauða, enda gat ég ekkert hringt í hann og ég vissi að hann hafði ekki leiðbeiningar til að komast til mín (enda hafði ég ætlað að sækja hann á lestarstöðina). En allt er gott sem endar vel, og hann skilað sér á endanum í hendur viðtakanda. Við eyddum svo helginni bara í afslöppun og stúss, fengum okkur gott að borða og svona og nutum blíðviðrisins sem hann flutti með sér frá Íslandi. Í dag fórum við ásamt xiwen svo í pílagrímsferð til Mediamark, sem er risastór raftækjaverslun, og fjárfestum í netmyndavél. Ef ónefndir fjölskyldumeðlimir gætu bara drifið sig í að vera nettengdir af og til (á sunnudögum til dæmis) þá er hægt að tala við okkur og sjá okkur í leiðinini (bara til öryggis, ef við skyldum breytast mikið í útlöndum). Eftir á fórum við í mekka húsmæðra- og feðra, Ikea!! Þar gæddum við okkur á laxi og kjötbollum og létum okkur dreyma um hvað við ætlum að búa flott og smekklega þegar við komumst úr kvennafangelsinu hérna á Louweshoek. Annars er það helst í fréttum að á morgun eigum við að skrifa undir samning við íbúðareigandann og þá er ekkert því til fyrirstöðu að við getum flutt inn í fyrirheitna framtíðarheimilið. Spurning hvernig þetta fer, enda höfðum við nokkrar spurningar um samninginn og sú sem hefur séð um þetta fyrir okkur virðist hálfgerð loftbóla, en við vonum bara hið besta. Ég er amk. mjööög tilbúin til að fá mína eigin íbúð, með alvöru ofni og sturtu sem flæðir ekki upp úr. Hmmm, hvað annað... Jú, smá ævintýri gerðist í síðustu viku þegar ég fór út að borða með stelpunum úr vinnunni. Við fórum á ítalskan veitingastað hérna skammt frá (Perla di Roma), sem hún Lussi var búin að mæla með, en hún er Rómarbúi í húð og hár og ætti að vita svona hluti betur en aðrir. Við pöntuðum líter af húsvíninu og deildum því fjórar (mig grunar samt að ég hafi fengið góðan bróðurpart af flöskunni) og skemmtum okkur vel fram eftir kvöldi. Þegar við ætluðum loksins heim lenti ég í þeirri ólukku að missa lyklana mína í síkið við hliðina, en ég hafði læst hjólinu mínu við grindverkið á brúnni. Þetta var sem betur fer grunnt síki, og þar sem við sáum í lyklana ákváðum við (í kæruleysi augnabliksins) að ég myndi bara hoppa úr buxunum út við vegg, klæða mig í pollabuxurnar hennar Anisku og klifra niður í síkið til að ná í lyklana. Annan eins viðbjóð hef ég aldrei stigið í, vil ekki einu sinni hugsa um hvað var þarna niðri... En ég náði lyklunum upp úr jökkinu og hún lussy sýndi dulda krafta þegar hún hosaði mig aftur upp á brúnna. Eftir á að hyggja var þetta kannski ekki ábyrgðarfyllsta lausnin, en það fór allt vel (sem betur fer) og eftir góða sturtu var ég eins og ný. Héðan í frá verð ég ekki með alla lyklana mína á sömu lyklakippu og hjólalykillinn.....
Eins og þið ættuð að muna, þá hitti ég kunningjakonu Iðunnar svilkonu á íslendingahátíð í Rotterdam fyrir nokkru. Hún lét mig vita af því um daginn að Samskip væri að leita að tölvufólki og hvort að Daði hefði nokkuð áhuga. Hann sendi á þá CV og fékk svo viðtal á Íslandi, sama dag og hann flaug út. Þeim leist bara vel á hann og hann á að hafa samband ið skrifstofuna í Rotterdam eftir helgi. Vinnan er víst fín og ágætlega borguð (betur en mín amk.), en sá er galli á gjöf Njarðar að hún er í Rotterdam- 1-2 klst með lest hvora leið takk fyrir! Við vitum að fólk gerir þetta, og stundum kemur vinnan til móts við mann á ýmsa vegu, en samt, 2-4 klst á dag með lest er afskaplega mikið... Maður vegur þetta bara og metur, sakar ekki að líta á þetta. Jamm, nú er ég sybbin og ætla að fara að sofa- var voða dugleg að skokka með Xiwen í morgun eftir kröftugan El Salvador kaffibolla ala Kaffitár. Ég set inn myndir við tækifæri af uppáhalds Víkingnum mínum og ævintýrum hans í landi syndarinnar. Þangaði til bið ég bara vel að heilsa og mun hugsa fallega til allra heima- vonandi fáið þið betra veður en við þessa dagana ;)

4 comments:

svooona said...

Hæ hæ, ég hlakka til að sjá myndir af nýju íbúðinni. kveðja Svansa

Steina said...

Hvað var pían að gera með pollabuxur bara svona á sér? Ekki mjög sex and the city... Annars krossa ég bara puttana fyrir Daða. Það er víst samt mjög þreytandi að ferðast svona langt í vinnuna, nokkrir sem vinna með mér sem fara einnoghálfan tíma í lest hvora leið. Hann á eftir að hafa mikkinn tíma til að lesa sko...

Steina said...

ekki mikkinn, mikinn.

Jóhanna María said...

Ég vil sjá myndir af nýju í búðinni, og mamma líka:D Úff, ég held að ég sleppi því að segja Hörpu og Evu síkissöguna því þær gætu líklegast ekki sofið í nótt, þær eru svo afskaplega síklahræddar...